Kristján Jóhannsson útgefandi er látinn, 81 árs að aldri, en Kristján lést á Landspítalanum í Fossvogi 26. október síðastliðinn. Greint er frá andláti hans í Morgunblaðinu í dag.
Kristján fæddist á Ísafirði 18. maí 1942 en flutti til Reykjavíkur um tvítugt þar sem hann hóf nám við prentiðn. Hann stofnaði Prentsmiðjuna Nes á Seltjarnarnesi og síðan eigin blaðaútgáfu þegar hann hóf útgáfu Nesfrétta árið 1988.
Hann gaf svo út fleiri hverfisblöð, til dæmis Vesturbæjarblaðið sem hann stofnaði ásamt Ingólfi Margeirssyni ritstjóra sem og Breiðholtsblaðið og Kópavogsblaðið.
Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag kemur fram að eftirlifandi eiginkona Kristjáns sé Elísabet Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra eru Guðrún, Jóhanna, Valur og Guðmundur Gauti Kristjánsbörn.