Fyrir helgi afturkallaði sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu starfsleyfi skemmtistaðarins B við Bankastræti, sem áður hét B5 og síðar Bankastræti Club, í sex vikur, frá og með 27. október að telja. Starfsleyfið er afturkallað á grundvelli þess að eftirlit lögreglu með staðnum hafi leitt í ljós að of margir hafi verið inni á staðnum í einu og þar hafi verið ungmenni sem ekki höfðu leyfi til að vera á staðnum.
Eigandi staðarins, Sverrir Einar Eiríksson, segir embættismenn hafa gengið fram af ofríki í málinu. Hann segir í samtali við DV:
„Við hörmum hvernig embættismenn hafa gengið fram af ofríki í garð staðar okkar í Bankastræti. Markmið okkar er hins vegar bara að eiga í góðu samstarfi við yfirvöld, halda staðnum opnum og tryggja með því bæði atvinnu þeim fjölmörgu sem að rekstrinum koma og gleðja gesti sem augljóslega kunna að meta staðinn. B5 er á stuttum tíma orðinn langvinsælasti skemmtistaður landsins. Við hlökkum til að opna dyr okkar aftur og notum tímann til að gera staðinn enn betri.ׅ“
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sverris, segir:
„Í fyrsta lagi hefur lögreglan farið algerlega offari í aðgerðum sínum. Í stað þess að óeinkennisklæddir lögreglumenn fari inn á staðinn mætir þar her einkennisklæddra lögreglumanna sem setja alla starfsemi úr skorðum. Sýslumaður síðan þverbrýtur meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins sem hann á að starfa eftir með því að gefa umbjóðanda mínum ekki áminningu áður og kost á því að bæta úr því sem mifarist hefur, sem er ein af grundvallarreglunum.“
Sveinn Andri segir að þessi framganga yfirvalda í málefnum skemmtistaðarins geti skapað ríkinu bótaskyldu, vegna þess tjóns sem leyfissviptingin veldur.
„b5 opnar nýr endurbættur þann 8 desember, í millitíðinni er ég heima hjá mér í London og er m.a. að kaupa einn flottasta næturklúbb í miðbæ London,“ segir Sverrir og er hvergi af baki dottinn.
Myndin sem fylgir fréttinni er tekin innan úr nýja staðnum hans í London. Sverrir er þó ekki tilbúinn að gefa upp nafn staðarins en segir:
„Já, ég er að kaupa klúbb sem er í rekstri og ætla að breyta aðeins um markaðssetningu á honum, m.a. um nafn.“ Segir hann að klúbburinn komi til með að heita NR1 en er ekki tilbúinn að gefa upp hvað staðurinn heiti núna, ekki strax.