Bandaríkjamenn fullyrða að Rússar hafi tekið einhverja af sínum eigin hermönnum af lífi fyrir að hafa óhlýðnast skipunum. Þá hafi heilu herdeildunum verið hótað lífláti ef þær leggi á flótta undan stórskotahríð Úkraínuhers.
CNN greinir frá þessu. John Kirby, talsmaður Þjóðaröryggisráðs Hvíta Hússins, fullyrti þetta án þess að koma með frekari sannanir fyrir þeim fullyrðingum. Sagði hann hegðun Rússa vera „villimannslega“.
Rússar hafa verið í sókn í austurhluta Úkraínu og hafa harðir bardagar geysað. Úkraínumenn greindu frá því að þeir hefðu stöðvað áhlaup Rússa við borgina Avdiivka og stráfellt fjölda rússneskra hermanna.
„Hermenn okkar stöðvuðu þá og hjuggu stór skörð í lið andstæðinganna,“ sagði Volodymyr Zelensky, Úkraínuforseti í ávarpi í gær.
Í áðurnefndri umfjöllun CNN kemur þó fram að ekki hafi tekist að finna sannanir fyrir fullyrðingum forsetans.