fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Ferð Davíðs á Evrópumót endaði sem martröð – „Svo ranka ég við mér í sjúkrabíl með sírenurnar í botni“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 27. október 2023 21:00

Íris Tinna Margrétardóttir og Davíð Kjartansson gengu í gegnum eldraun í flugi frá Albaníu á dögunum

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Davíð Kjartansson skákmeistari og eigandi Skákbúðarinnar var á heimleið ásamt unnustu sinni frá Albaníu á dögunum. Davíð keppti þar í Evrópukeppni taflfélaga ásamt félögum sínum.

Parið hafði hugsað sér að stoppa eina nótt í París og eiga þar rómantíska kvöldstund áður en haldið yrði heim í hversdagsleikann. Það plan breyttist þó all verulega. Davíð var orðinn slappur fyrir flug en í vélinni varð unnusta hans, Íris Tinna Margrétardóttir vör við að Davíð varð sífellt slappari og næsta sem sem hann vissi var þegar hann rankaði við sér í sjúkrabíl í Róm. 

Í færslu á Facebook sem Davíð gaf DV góðfúslega leyfi til að deila segir hann frá aðdraganda atviksins og eftirleik, en hann er nú kominn heim og framundan eru rannsóknir á Landspítalanum. Millifyrirsagnir eru blaðamanns.

„Eftir afskaplega vel heppnaða dvöl í Albaníu var komið að því að halda heim. Planið var að fljúga til Parísar eiga þar rómantíska kvöldstund og fljúga svo heim til Íslands morguninn eftir. Kvöldið fyrir flug var ég orðin ansi slappur með hita og beinverki, ekkert sem ég kippti mér upp við enda vírus búin að herja á alla keppendur í mótinu. Tók bara verkjatöflur, drakk vatn og hætti öllu væli eins og sönnum Íslending sæmir,“ segir Davíð.

Hefði ekki farið einn í flugið

Davíð segist vera farinn að þekkja sjálfan sig ágætlega þegar kemur að flugum enda hefur hann alltaf ferðast mikið. 

„Þennan morgun hafði ég á orði við Írisi að ef ég væri einn að ferðast myndi ég ekki fara í þetta flug. Hefði einfaldlega hent miðanum tekið auka nótt í Tirana og ferðast til baka þegar ég væri orðinn „fit to fly“ eins og það er kallað. Hins vegar er ekki ókeypis að fljúga og því er maður alltaf tregur að kasta frá sér flugum og kaupa ný á uppsprengdu verði,“ segir Davíð.

„Hitinn var að hækka og ég þurfti að styðja mig við Írisi á flugvellinum. Með herkjum komst ég út í vél og hugsaði með mér að ég ætlaði að reyna að sofna. Flugið frá Tirana til Parísar er ekki nema tveir tímar og ég hlyti nú að geta harkað þetta af mér eins og allt annað. Það var heitt úti, heitt inn í vélinni en mér var skítkalt. Klæddi mig í peysu sem er í engum takti við mig enda mjög heitfenginn. Aftur hugsaði ég að þetta væri nú ekki í fyrsta skipti sem ég ferðaðist veikur og eflaust ekki í það síðasta heldur,“ segir Davíð sem lyngdi aftur augunum um leið og flugvélin hóf sig á loft.

Rankaði við sér í sjúkrabíl í Róm 

Davíð rankaði næst við sér í sjúkrabíl með sírenurnar í botni á öðru hundraðinu á leið á spítala í Róm. „Búið að setja næringu í æð og setja allskyns blöðkur á mig og ítalskir sjúkraliðar að úða á mig einkennilegum spurningum og slá mig í andlitið. Meðvitundin datt svo inn og út en ég man á ákveðnum tímapunkti að þrátt fyrir að vera vegabréfslaus, símalaus og í engum skóm myndi ég finna út úr þessu einhvern veginn einhvern tímann. Íris var hvergi sjáanleg og Róm? Ég var á leiðinni til Parísar.“

Flugferðin hafði tekið sinn toll. „Íris tók allt í einu eftir því að ég sett upp einkennilega grettu, höfuðið krepptist til hægri og hendurnar á mér urðu stífar og byrjuðu að lyftast. Í fyrstu hélt Íris að ég væri að grínast en svo sá hún augun fara upp í höfuð og mig missa meðvitund í kjölfarið,“ segir Davíð.

Íris byrjaði því að dingla á bjölluna og kalla eftir hjálp. „Flugliðar Transavia brugðust að mér er sagt ótrúlega vel við og stóðu sig eins og hetjur. Okkur til happs voru þrír læknar um borð sem allir komu og aðstoðuðu á einhverjum tímapunkti og voru yfir mér allan tímann þangað til flugstjórinn tók þá ákvörðun að nauðlenda vélinni í Róm. Þegar svona gerist er ómögulegt að meta hvað nákvæmlega sé að hjá nokkuð frískum manni. Flog, krampar, meðvitundarleysi, hár hiti, þrýstingur getur í sumum tilfellum orsakað heilablóðfall.

Fyrstu hugsanir eru oft að æðar hafi sprungið í höfðinu af völdum þrýstings. Svona mál eru því vandmeðfarin. Í öllum mínum flugferðum hef ég blessunarlega aldrei orðið vitni af svona löguðu né lent í því að flugvél sé nauðlent. Get þó trúað að þetta sé ansi óhugnanlegt fyrir aðra farþega vélarinnar. Flugliðar eru algjörar hetjur sem eru vel þjálfaðar í gríðarlega erfiðum aðstæðum.“

Davíð um borð í flugvélinni

Settur út í horn á bráðamóttökunni

Að sögn Davíðs tók við vægast sagt ömurlegur tími á bráðamóttökunni. „Manni var rúllað út í horn og látinn afskiptalaus. Blessunarlega hafði einn sjúkraliðinn tekið símann minn þannig að ég gat haft samband við Írisi sem var á leiðinni á spítalann í leigubíl. Þegar hún loksins kom var henni ekki hleypt inn, enginn talaði ensku. Það er víst engum hleypt inn á bráðamóttökuna nema sjúklingum. Eftir margra klukkutíma bið og engin svör var þolinmæðin nánast á þrotum. Ég var skjálfandi af kulda með háan hita og öllum virtist vera nokkuð sama. Þá rann upp fyrir mér sá möguleiki að fólki væri mismunað, kannski var ég bara einhver túristi í þeirra augum sem talaði ekki ítölsku. Því miður er þetta stundum svona það voru því góð ráð dýr. Íris hringdi út um allar trissur að reyna að finna lausnir og fá að tala við lækna en ekkert gekk.“

Staðan breytist verulega eftir að Íris fékk ábendingu um að heyra í ræðismanni Íslands í Róm, Hrefnu Tynes. Þakkar Davíð henni fyrir alla hennar aðkomu og segir hana algjöran engil.

„Það var okkar túlkun að Ítalír líti upp til fólks með titla því um leið og ræðismaðurinn hafði talað við lækna og starfsmenn spítalans voru allir tilbúnir að aðstoða. Ég fékk að borða, teppi yfir mig og Írisi var hleypt inn til mín. Stuttu síðar var ég lagður inn á taugadeild þar sem ég eyddi næstu þremur dögum. Ræðismaðurinn okkar í Róm heitir Hrefna Tynes og er algjör engill. Hún pantaði hótel fyrir Írisi og var í stöðugum samskiptum við hana og lækna ef það þurfti túlk. Reglur spítalans voru beygðar og fékk Íris að vera lengur hjá mér en gengur og gerist. Fyrir það var ég afar þakklátur.

Íris Tinna og Davíð árið 2018
Mynd: Facebook

Þegar flugstjóri ákveður að nauðlenda flugvél í öðru landi með veikan farþega, maður er lagðir inn á spítala, auka hótelkostnaður, öll tengiflug og hótelgisting í París farin fyrir bí og annar ófyrirsjáanlegur kostnaður bætist við fær maður hálfgert kvíðakast. Eina sem kemst að er hvað á þetta eftir að kosta mikið? Ekki hvort það sé allt í lagi með mann.“

Í herbergi með tveimur mjög veikum mönnum

Davíð lýsir spítalavistinni erlendis og segir hana hafa verið mjög óþægilega. „Ég var settur í herbergi með tveimur mönnum sem höfðu fengið heilablóðfall og þurfti aðstoð við allar þarfir. Herbergið lyktaði eftir því. Mér var svo tjáð af hjúkrunarkonu að annar mannanna væri orðin mjög veikur og gæti átt lítið eftir. Læknar þyrftu því að koma reglulega sem gerði nætursvefninn ómögulegan,“ segir Davíð. 

Segir hann það hafa verið einkennilegt að engin tjöld voru til staðar sem hægt var að draga fyrir eins og hérna á Íslandi. „Menn liggja bara mjög þétt saman í litlu rými með ekkert á milli. Ég hugsaði oft hversu ömurlegt mér þætti þetta þeirra vegna. Það var skipt á þeim með mig liggjandi við hliðina og aldrei á þessum tíma var þeim þvegið sómasamlega eða tennurnar í þeim burstaðar. Ættingjar fengu að heimsækja þá eina klukkustund á dag. Mikið innilega vona ég að þeim líði betur.“

Davíð á spítalanum í Róm

Langaði að útskrifa sig sjálfur

Segir Davíð að svolítið hafi verið eftir á þolinmæðistankinum að hann langaði helst að útskrifa sjálfan sig, en sem betur fer hafi hann verið stoppaður í því.

„Ef læknir útskrifar ekki þá lendir allur reikningurinn á viðkomandi og var okkur tjáð að það væri ekkert klink. Í þessu ferli vorum við í ágætis samskiptum við SOS International sem er einhvers konar batterí sem aðstoðar fólk á ferðalögum í neyð. Þetta var eiginlega of mikið batterí fyrir minn smekk því þau ætluðu að stoppa að ég færi í heilaskanna og ómskoðun. Það er víst stranglega bannað að fara á einkarekna spítala sem er auðvitað ekki það sem maður er að pæla í á þessu stigi málsins.“

Þakkar öllum sem aðstoðuðu hann

Davíð segist eiga yndislega fjölskyldu og tengdamóður sem er lögfræðimenntuð og gat hún komið með mikilvæga punkta og ráð. „Það er vonlaust að standa í svona einn. Þau stóðu við bakið á okkur allt ferlið og kann ég þeim öllum bestu þakkir fyrir.

Ræðismaðurinn okkar í Róm Hrefna Tynes er algjör demantur. Hún var ómetanleg hjálp. Þegar hennar nafn var nefnt hvort sem var á hótelinu eða spítalanum breyttist öll hegðun starfsmanna til hins betra. Það er greinilega borin ómæld virðing fyrir henni í Róm.

Unnustan mín er yndisleg og sterk. Ég hefði aldrei getað þetta án hennar aðstoðar. Við erum bestu vinir sem eigum auðvelt með að hugsa fyrir hvort annað eins og í aðstæðum sem þessum. Þrátt fyrir að allt væri í baklás vissi ég að Íris myndi þrjóskast til að fá að koma með mér þvert á allt regluverk í flugi. Hún myndi aldrei skilja mig eftir einan allslausan í öðru landi. Okkar samband er frábært og ég gæti ekki verið heppnari og þakklátari fyrir að hafa hana mér við hlið alltaf alla daga. Það sem hún lagði á sig til að aðstoða er virðingarvert. Á ég henni allt að þakka.

Vil einnig þakka þeim fjölmörgu vinum og kunningjum sem tóku tíma til að tékka á okkur. Þótt svörin hafi oft verið snubbótt frá mér þá kann ég virkilega mikið að meta allar kveðjurnar,“ segir Davíð, sem segist vera með heilan helling af ósvöruðum símtölum og skilaboðum og mun ég fara í gegnum þetta á næstu dögum.

Hann er nú kominn til Íslands til frekari rannsókna á taugadeild Landspítalans.

„Þó skákin og lífið sé komið í smá hvíld þá get ég fullvissað ykkur um að ég mun rísa upp eins og fuglinn Fönix og koma tvíefldur til baka í leik og starfi. Þrjóskan, baráttu og lífsgleðin leyfir ekkert annað.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Kiðjabergs- og Naustahverfismálin vekja furðu því meintir morðingjarnir eru ekki taldir sekir um manndráp – Jón Steinar útskýrir hvers vegna

Kiðjabergs- og Naustahverfismálin vekja furðu því meintir morðingjarnir eru ekki taldir sekir um manndráp – Jón Steinar útskýrir hvers vegna
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum
Fréttir
Í gær

Nafntogaðir einstaklingar rökræða neikvæðan dóm um tónleika Bríetar – „Það getur ekki alltaf allt verið gott“

Nafntogaðir einstaklingar rökræða neikvæðan dóm um tónleika Bríetar – „Það getur ekki alltaf allt verið gott“
Fréttir
Í gær

Ef málið væri ekki svona alvarlegt ættu viðbrögð SVEIT heima í áramótaskaupinu

Ef málið væri ekki svona alvarlegt ættu viðbrögð SVEIT heima í áramótaskaupinu
Fréttir
Í gær

Verslunarstjóri ákærður fyrir nauðgun á fötluðum undirmanni sínum og tveimur andlega fötluðum ungmennum

Verslunarstjóri ákærður fyrir nauðgun á fötluðum undirmanni sínum og tveimur andlega fötluðum ungmennum
Fréttir
Í gær

Íslenski morðinginn hlaut 24 ára fangelsisdóm í barnaníðsmáli

Íslenski morðinginn hlaut 24 ára fangelsisdóm í barnaníðsmáli
Fréttir
Í gær

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“
Fréttir
Í gær

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT