Or Ben-Yehuda, lautinant deildarinnar, sagði liðskonunum að „vera á varðbergi“ þegar þær héldu í átt að samyrkjubúinu Sufa í kjölfar frétta af því að þungvopnaðir hryðjuverkamenn væru þar. „Við ætlum að gera út af við þessa hryðjuverkamenn. Þeir hafa ráðist inn í Ísrael og eru að dreifa sér. Verið á varðbergi því við gætum rekist á þá. Við erum sterk herdeild,“ sagði hún að sögn The Sun.
Þegar þær komu að herstöð nærri samyrkjubúinu höfðu Hamasliðar ráðist á hana og tekið rúmlega 50 hermenn til fanga.
Þegar konurnar 13 nálguðust herstöðina gerðu 50 þungvopnaðir Hamasliðar árás á þær. Daily Mail segir að Or Ben-Yehuda hafi staðið augliti til auglits við einn þeirra og skotið hann til bana af stuttu færi.
Foringi annarrar herdeildar kom á vettvang og lagði til að ráðist yrði á bygginguna þar sem hryðjuverkamennirnir héldu sig en Ben-Yehuda neitaði því þar sem hún vildi ekki stofna lífi gíslanna í hættu. Þess í stað beindi hún aðgerðum herdeildarinnar að hryðjuverkamönnum sem voru úti á víðavangi og dreifðir um herstöðina.
Næstu fjórar klukkustundirnar börðust konurnar við hryðjuverkamennina en þá fengu þær liðsauka frá sérsveit sjóhersins. Eftir fjórtán klukkustunda bardaga tókst þeim að ná fullum yfirráðum yfir herstöðinni.
Ben-Yehuda sagði að þetta sanni að „engar efasemdir séu um kvenhermenn“ og hrósaði liðskonum sínum fyrir að hafa borið sigur úr býtum og fellt um 100 hryðjuverkamenn og þar með bjargað lífi fjölda fólks.
Um 50.000 konur gegna herþjónustu í Ísrael og um 150.000 karlmenn.