Kristinn Jens Sigurbjörnsson, fyrrverandi sóknarprestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, telur möguleika vera á því að ráðningarsamningur sem framkvæmdastjóri Biskupsstofu gerði við Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup, sé falsaður og settur fram í blekkingarskyni.
Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu.
Umræddur ráðningarsamningur, sem gerður var eftir að kjörtími biskups rann út, hefur vakið mikla gagnrýni og lagaleg óvissa ríkir um hvort Agnes sé löglega skipuð biskup og hvort embættisfærslur hennar séu gildar.
Samningurinn er sagður gerður 1. júlí 2022. Kristinn segir komnar fram upplýsingar sem bendi til að hann hafi verið gerður síðar og þá í raun eftir að hann átti að hafa tekið gildi. Í greininni segir:
„Nú hafa þau tíðindi gerst að fram eru komnar upplýsingar er styðja þennan möguleika. Fékk bréfritari fyrir skemmstu ábendingu um að gagnlegt væri að skoða ráðningarsamning Agnesar eins og hann liggur fyrir sem pdf-skjal. Var tölvunarfræðingur fenginn til að rannsaka skjalið. Kom þá í ljós að ráðningarsamningur Agnesar var stofnaður á pdf-formi fimmtudaginn 9. mars 2023 kl. 15.22 auk þess sem skjalinu var breytt skömmu síðar. Pdf-skjalið með samningnum var sem sagt stofnað í skjalakerfi biskupsstofu innan tímabilsins 20. febrúar til 20. mars. Hefur lögmaður Agnesar, Einar Hugi Bjarnason, staðfest þessa tilurð pdf-skjalsins.“
Kristinn skorar á kirkjuþing að beita sér fyrir því að málið verði rannsakað:
„Margt bendir nú til að ráðningarsamningur Agnesar hafi ekki orðið til fyrr en á þessu ári; hann sé því mögulega falsaður og settur fram í blekkingarskyni. Vegna þessa er því hér með skorað á kirkjuþing að beita sér fyrir að þetta alvarlega mál verði rannsakað opinberlega svo leiða megi það til lykta og draga fram mögulega sekt eða sýknu málsaðila. Þegar málsatvik eru skoðuð blasir við að illmögulegt er að bægja frá grunsemdum um saknæma háttsemi. Einmitt þess vegna er lögreglurannsókn knýjandi.“
Kristinn bendir síðan á fjölmörg atriði sem veki spurningar. Þannig séu engir vottar að gerð samningsins og Ragnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Biskupsstofu, sem gerði samninginn við Agnesi, hafi ekki tjáð sig um hann. Þögn hafi ríkt um samninginn mánuðum saman og ekki hafi verið minnst á hann í umsögn lögmanns Agnesar þar sem forseta kirkjuþings var gerð grein fyrir lagalegri stöðu Agnesar sem biskups Íslands. „Í skjalinu er ekki nefnt að ráðningarsamband Agnesar við þjóðkirkjuna byggist á samningi,“ segir Kristinn. Þá segir ennfremur í þessu samhengi:
„Annað skjal („minnisblað“), dagsett 20. mars 2023, er lagt fram af lögmanni Agnesar til að rökstyðja stöðu hennar sem biskups Íslands (lögskipti). Ber þá svo við að skírskotað er til samnings. Er rökstuðningurinn grunsamlega ólíkur fyrri rökstuðningi í febrúar.“
Ennfremur bendir Kristinn á að samningurinn hafi fyrst verið skannaður inn sem pdf-skjal í skjalavörslukerfi biskupsstofu níu mánuðum eftir að samningurinn á að hafa verið undirritaður.
Kristinn ítrekar áskorun sína til kirkjuþings um að láta fara fram lögreglurannsókn á ráðningarsamningnum.