Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Guðmundi að einstaklingar séu fórnarlömbin í þessu en í raun megi segja að almenningur sé undir því það sé verið að herja á hann í þeirri von að hann falli fyrir þessu.
Hann sagði að þetta virki þannig að verið sé að plata fólk til að skrá sig inn á síður sem líta út eins og Island.is. Fólk sé síðan beðið um að velja hvaða bankastofnun það sé í viðskiptum við en það sé eitthvað sem íslenskir bankar geri aldrei. Þrjótarnir noti innskráninguna til að senda auðkenningarbeiðni til viðkomandi.
„Fólk heldur að það sé að skrá sig inn á Ísland.is en er í raun að skrá þessa óprúttnu aðila inn á heimabankann í staðinn,“ sagði hann og bætti við að mikilvægt sé að skoða skilaboðin vel. Þau líti kannski eðlilega út en þegar betur sé að gáð sé yfirleitt ekki íslensk síða á bak við þau. Nöfnin séu oft sérstök og ending vefslóðarinnar sé ekki .is.