Landsréttur staðfesti á þriðjudaginn gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir einum af sakborningunum í Cocotte-skútumálinu.
Þrír danskir menn eru ákærðir vegna atviks frá 23. júní síðastliðnum þegar mennirnir sigldu skútunni Cocotte úti fyrir Garðskagavita í Suðurnesjabæ. Þeir Poul Frederik Olsen (fæddur árið 1970) og Henry Fleischer (fæddur 1989) eru sakaðir um að hafa haft í vörslum sínum á skútunni um 157 kíló af hassi og 40 g af maríhúana. Fyrirhugað var að sigla með fíkniefnin til Grænlands til sölu og dreifingar þar. Skútan var sjósett í Danmörku og sigldu ákærðu Poul Frederik og Henry með fíkniefnin að Íslandsströndum.
Jonaz Rud Vodder, sem er fæddur 2002, er síðan ákærður fyrir hlutdeild í brotinu.
Auk þess að krefjast refsingar yfir mönnunum er krafist upptöku á fjölmörgum munum og tækjum sem tengjast brotinu, þar á meðal skútunni sjálfri, Cocotte. Einnig er krafist upptöku á fíkniefnunum, utanborðsmótor, símum, tölvum, rafstöð, björgunarvesti, plastbát og fjölmörgu öðru.
Landsréttur hefur nú birt gæsluvarðhaldsúrskurð sinn og Landsréttar yfir einu af þessum mönnum en ekki vitað hver þeirra það er, þar sem nafn sakborningsins er hreinsað út úr úrskurðinum. Í lýsingu á málsatvikum kemur fram að mennirnir hafi siglt með gúmmíbáti í land á Reykjanesi frá skútunni sem var þar útifyrir, en þeir höfðu lent í óveðri og skorti birgðir og eldsneyti. Mennirnir sáust bera vistir í gúmmíbátinn og sigla honum að skútunni en um í skútunni fannst mikið magn kannabisefna.
Maðurinn hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald fram til 8. nóvember og mun væntanlega sitja í gæsluvarðhaldi fram að réttarhöldum. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan 24. júní. Málið var þingfest fyrir dómi um miðjan september.
Gæsluvarðhaldsúrskurðinn má lesa hér.