Sú sem löðrungaði breska stúlku á göngum Hótel Arkar síðastliðinn föstudag er búsett á Íslandi. Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson,yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við fréttastofu RÚV. Ekki liggur fyrir hvort konan starfi á vegum íslensks ferðaþjónustufyrirtækis né hvort að hún sé í félagi leiðsögumanna hérlendis.
Eins og DV greindi frá fyrr í dag fordæmir stjórn Leiðsagnar – Félags leiðsögumanna atvikið en það hefur vakið mikla athygli utan landsteinanna. Breskir fjölmiðlar hafa þannig fjallað ítarlega um málið en stúlkan sem var slegin er nemandi í Harris Girls Academy Bromley í New Beckenham og var hér með skólafélögum sínum í ferðalagi.
Harris Academy Bromley we hope this woman was arrested? This is assault, she needs to be sacked and never work with or near young people again. We understand she is the tour guide on your trip, but something needs to be done. pic.twitter.com/z7XMMoA1vX
— Cherylphoenix (@Cherylphoenix99) October 15, 2023
Móðir stúlkunnar sem var slegin lýsti atvikinu í samtali við breska fjölmiðla.
Sagði hún að löðrungurinn hafi átt sér stað eftir að dóttir hennar kom vinkonu sinni til varna er fararstjórinn öskraði á hana.
„Dóttir mín bað hana kurteisislega að slaka á og þá var hún slegin. Ef barnið mitt væri hvítt þá held ég að þetta hefði ekki gerst. Fararstjórinn sló ekki vinkonu dóttur minnar, sem er hvít, eða einu sinni slegið í átt að henni. En henni fannst í lagi að slá barnið mitt. Þetta er raunveruleikinn sem við búum við. Svart fólk nýtur ekki virðingar, það er ekki talið hafa gildi og er ekki samþykkt.“