Neyðarástand ríkir í landinu og tími kominn á aðgerðir. Þessu hélt Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur, fram nýlega í tengslum við líðan ungmenna, námsárangur og málskilning. Ekki nóg með það heldur telur rithöfundurinn að foreldrar landsins séu að bregðast á meðan kennarar og skólar geta ekki meir. Foreldrar hreinlega nenni ekki að vera foreldrar. Telur Þorgrímur að lausnin felist í því að banna notkun farsíma í skólum.
En er það lausnin? Brynjar Marínó Ólafsson, skólastjóri, telur svo ekki vera. Hann ritar grein sem birtist hjá Vísi í dag þar sem hann setur út á málflutning Þorgríms sem megi líkja við það að ætla að skera vínber með sveðju.
Sjá einnig: Segja Þorgrím missa marks
„Símabann í skólum, miðlægt símabann á landsvísu. Fyrir mér hljómar það eins og „pillan“ sem á að leysa vandann en báðir eru sammála um að hún sé ekki til.“
Brynjar geti tekið undir með Þorgrími að foreldrar setja börnum sínum síður mörk þessa daganna og hafi hreinlega ekki tíma til að sinna hlutverki sínu sem skildi. En er símabann lausnin?
Þorgrímur hafi vísað til rannsókna að börn eyði um 8-10 klukkustundum á dag ísímanum. Brynjar bendir þó á aðrar rannsóknir sem sýni að þessi notkun fari ekki fram í skólanum, en börn eyði innan við klukkustund í símum sínum, eða innan við hálftíma eða yfir höfuð ekki neitt, eins og kom fram í nýjasta Skólapúlsi sem lagður var fyrir nemendur í 6.-10. bekk. Því væri símabann í skólum ekki að fara að draga sérstaklega mikið úr heildarnotkun barnanna.
Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, hafi tekið undir áhyggjur Þorgríms, við værum að tapa börnunum inn í síma og tölvuleiki.
„Ekki veit ég til þess að nemendur séu að mæta með Playstation tölvur í skólana til að spila tölvuleiki en engu að síður sýna rannsóknir að hópur unglinga er djúpt sokkinn í tölvuleikjaspilun og mætir ósofinn í skólann eftir spil langt fram eftir nóttu. Myndi símabann í skólum leysa þann vanda?“
Brynjar hefur átt börn í símalausum skóla. Þau hafi fljótt lært að komast í kringum bannið, fylgdust með þegar kennari var ekki að fylgjast með og lögðu aðeins niður símann ef þau gætu verið staðin að verki. Hann er þó sammála því að börn eiga ekki að vera að taka upp samnemendur sína með símum eða baktala á samfélagsmiðlum, en þessi mál komi oftast upp utan skólatíma. Börn deili líka á fótboltavelli og í sippó, en varla verður slíkt leyst með því að banna þeim að leika sér.
Raunveruleikinn sé sá að vandinn er ekki síminn, heldur samfélagsmiðlar.
„Nú er ég ekki að reyna að vera fúll á móti með þessum skrifum en ég óttast að háværir andstæðingar síma í skólum reyni að ná fram símabanni sem líklega mun skila takmörkuðum árangri við raunverulega vandanum. Slíkt gæti meira að segja dregið úr ábyrgð foreldra sem gætu litið svo á að fyrst komið væri símabann í skólum þá þurfi þeir sjálfir ekki að hafa áhyggjur, skólinn sá um að tækla vandann.
En það getur verið auðvelt að gagnrýna og eðlilegt að einhverjir spyrji hvort ég lumi á annarri lausn. Stutta svarið er „Nei“. Ég luma a.m.k. ekki á töfralausn eða pillu sem virkar til að bjarga æsku landsins og lýðræðinu á einu bretti. En samt koma nokkur atriði upp í hugann.“
Þorgrímur hafi komið inn á annan punkt sem sé mun mikilvægari en hafi ekki fengið sömu athygli og símabannið. Hann sagði börn þufa meiri samskipti við foreldra sína og fjölskyldu til að þjálfa samskiptahæfni og auka orðaforða. Brynjar bendir á að jákvæð samvera hafi mikið forvarnargildi, auki víðsýni og orðaforða.
Eins að auka þurfi lestur. Heimalestrarmiðar nemenda bendi til þessað foreldrar séu ekki að láta börnin sín lesa nógu lengi eða yfir höfuð. Þetta sá brotalöm hjá allt of mörgum.
„Sumum finnst það hlutverk skólans að kenna lestur, sem það vissulega er, en færnin fæst með aukaæfingunni sem verður að fara fram heima ef vel á að takast. Svo ekki sé talað um viðbótarorðaforðann sem fæst við auka lestri. Hvað með að fjölga samverustundum með því að fara á bókasafnið til að skoða og velja áhugaverðar bækur? Bæði er í lagi að fara slíka ferð með unglingnum á heimilinu eða vera fyrirmyndin sem kemur reglulega heim með bók af safninu.“
Síminn sé kominn til að vera og í stað þess að banna hann ætti að læra að hafa stjórn á þessari tækni. Foreldrar ættu heldur að hugsa til þess að takmarka símatíma og forgangsraða heimanámi. Sími ætti ekki að vera inni í herbergi með börnunum á nóttunni og foreldrar eigi að láta athugasemdir eins og að allir samnemendur megi hafa símann, sem vind um eyru þjóta.
Það þarf einnig að virða menningu ungmenna og hvað sem okkur þyki um það þá sé síminn hluti af henni.
„Ég man hvað það skipti mig miklu máli sem unglingur að fá að vera með vasadiskó í skólanum, minnir að við höfum náð því í gegn með söfnun undirskrifta. Margir hneyksluðust þá á unglingum sem sátu hver með sín heyrnartól og var óttast að þeir myndu aldrei ná almennilegum tökum á samskiptum. Þá var setið í hring og hlustað, menn skiptust jafnvel á kasettum og þetta var okkar eigin menning. Flest lærðum við samt að tjá okkur. Svo kom eitthvað nýtt, svo kom eitthvað nýtt og svo komu snjallsímar.“
Því sé bann ekki lausnin heldur sé það undir foreldrum komið að takast á við þann vanda sem ungmennin glíma við með aukinni samveru, mörkum og aðhaldi.
„Því rétt eins og Jón Pétur sem óttast dóm næstu kynslóðar um okkur, þá vil ég heldur ekki láta dæma dæma okkur með orðunum „Hvernig datt ykkur í hug að ætla að leysa þennan vanda með símabanni í skólum þegar 90% af vandanum er utan skólans“. Pössum okkur á því að fara ekki offari þegar kemur að því að finna bestu leiðina, það þarf ekki endilega sveðju til að skera vínber.“