Málið hefur vakið gríðarlega reiði á samfélagsmiðlum og hefur hún einkum beinst að Ísraelsmönnum sem þó hafna ábyrgð.
Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir nauðsynlegt að rannsaka málið ofan í kjölinn og draga til ábyrgðar þá sem báru ábyrgð á árásinni án þess þó að nefna nokkur nöfn.
Ísraelska varnarmálaráðuneytið hefur nú birt myndband sem á að sýna að sprengjan sem lenti á Al Ahli-sjúkrahúsinu hafi komið frá Gasasvæðinu.
Á myndbandinu sést þegar eldflaug er skotið á loft, eitthvað virðist klikka í skotinu og virðist flaugin missa afl skömmu eftir að hún fer á loft. Ísraelski herinn fullyrðir að hún hafi svo lent á sjúkrahúsinu með fyrrgreindum afleiðingum.
Ísraelski herinn segir að harmleikurinn sé afleiðing þess þegar eldflaugum er skotið á loft frá þéttbýlum svæðum eins og þarna er að finna. Kennir Ísraelsher íslamistasamtökunum PIJ um árásina en samtökin hafa á móti þvertekið fyrir það að flugskeytið hafi komið frá þeim.
Heilbrigðisyfirvöld á Gasasvæðinu segja að tvö til þrjú hundruð manns hafi látist í sprengingunni en talið er að tala látinna eigi þó enn eftir að hækka.
Jonathan Conricus, talsmaður ísraelska varnarmálaráðuneytisins, segir að Ísraelsher stundi það ekki að gera árásir á „viðkvæm mannvirki“ eins og sjúkrahús.
Daniel Hagari, hátt settur fulltrúi hjá hernum, ræddi málið einnig við CNN og sagði að Hamas-samtökin hefðu vitað strax að eldflaugin kom frá PIJ en ekki frá Ísrael. Benti hann á að undanfarna ellefu daga hafi minnst 450 eldflaugaskot frá Gasasvæðinu sem beint var að Ísrael misfarist og lent á Gasasvæðinu.