Kerry þessi var bílstjóri Uber-leigubílaþjónustunnar þegar hann ók fram á konu sem virtist vera í miklu uppnámi í september 2021. Konan hafði orðið fyrir kynferðisbroti og taldi hún að Kerry myndi bjarga henni frá árásarmanninum. Það gerði hann vissulega en í stað þess að koma henni í öruggt skjól braut Kerry sjálfur á henni.
Í frétt Miami Herald kemur fram að konan hafi óttast mjög um öryggi sitt í bílnum þegar Kerry byrjaði að tala við hana um kynlíf. Brá konan á það ráð að stökkva út en ekki vildi betur til en svo að Kerry elti hana og braut gegn henni við þekkt kennileiti í Key West.
Svo vildi til að vefmyndavél náði atvikinu á myndband og réði algjör tilviljun því að starfsmaður neyðarlínunnar í Boston, rúmum 2.500 kílómetrum í burtu, var að horfa á beina útsendingu frá umræddri vefmyndavél. Hann hafði sjálfur samband við neyðarlínuna þar sem hann lýsti því sem hann sá.
Sagðist hann hringja frá Boston og vera að horfa á umrædda vefmyndavél. „Þetta kann að hljóma ótrúlega en ég get svo svarið það, ég held ég hafi séð nauðgun,“ sagði hann.
Lögregla fann konuna sem varð fyrir árásinni og kom henni undir læknishendur. Það gekk heldur hægar að hafa upp á árásarmanninum en það hafðist að lokum.
Kerry átti yfir höfði sér 25 ára fangelsi vegna málsins en þar sem hann játaði brotið fékk hann tíu ára dóm. Maðurinn sem grunaður er um að brjóta gegn konunni fyrr þetta sama kvöld heitir Calderon Nunez. Hann er í fangelsi þar sem hann bíður réttarhalda í málinu.