Hjörleifur skrifaði grein sem birtist á vef Vísis í gær þar sem hann gengur býsna langt gegn Ingu og þjófkennir hana í raun.
Hjörleifur, sem sjálfur hefur kallað sig guðföður lista Flokks fólksins á Akureyri, komst í fréttirnar á síðasta ári eftir að þrjár konur sem skipuðu efstu sætin á listanum lýstu ofbeldi, kynferðislegri áreitni og einelti af forystumanna flokksins norðan heiða.
Konurnar blésu til blaðamannafundar í fyrra þar sem Hjörleifur kom við sögu en konurnar lýstu meðal annars kynferðislegri áreitni af hendi Hjörleifs. Fór að lokum svo að stjórn Flokks fólksins ákvað að reka hann úr flokknum.
Í greininni sem Hjörleifur skrifar segir hann farir sínar ekki sléttar af samskiptum við Ingu. Hann bendir á að Inga hafi fyrir skemmstu skrifað grein sem fjallaði um að aldraðir hefðu lengi þurft að umbera stjórnmálamenn sem sigla undir fölsku flaggi.
„Þarna tel ég, sem þekki til að Inga Sæland sé að lýsa sjálfri sér í stórum dráttum,“ sagði Hjörleifur og lýsti svo málavöxtum eins og þau sneru að honum.
„Málið er að ég vann fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar hér á Akureyri mikið og eftirtektarvert starf sem skilaði mjög góðum árangri í verktöku fyrir Flokk fólksins og tók mig um einn mánuð og ætlaði ég af mínu rómaða lítillæti að taka kr. 300 þús. fyrir en það var einmitt sú upphæð sem skúrkurinn Bjarni fjármálaráðherra ætlar okkur gamlingjunum að lifa af,“ segir hann.
Hann segir að nú standi málin þannig að Inga neiti að greiða honum launin og „ætlar þar með að stela þessum krónum af mér“.
Inga segir í samtali við DV að hún hafi verið hissa á því að greinin hafi yfir höfuð verið birt á vef Vísis, enda alvarlegar ásakanir í henni sem enginn fótur er fyrir.
„Hann var aldrei ráðinn hjá okkur þessi maður, aldrei nokkurn tímann, og hann bara á alla mína samúð, það er bara þannig. Ég hef ekkert um hann að tala,“ segir Inga.
Þannig að þetta er bara þvæla?
„Hann er búinn að sýna það sjálfur hvaða mann hann hefur að geyma, bæði gagnvart ofbeldinu sem hann beitti þarna á sínum tíma og fyrir utan það að hann var aldrei ráðinn af okkur neins staðar, ekki fyrir eina einustu krónu […] Ég vísa þessu til föðurhúsanna, hann er fúll og reiður og hann var rekinn eftir meint kynferðislegt áreiti á unga konu. Þetta er bara beiskur, gamall, reiður karl, punktur.“