Þorvaldur greinir frá þessu á Facebook-síðu og segist hafa séð sig knúinn til að senda Stefáni bréf sem hann birtir sjálfur.
„Ég skrifa til að krefjast þess að nafn mitt verði numið burt án tafar af lista með nöfnum þeirra sem þakkað er í lok beggja hluta heimildamyndarinnar Baráttan um Ísland sem sýnd var í RÚV 8. og 9. október s.l. Myndin er hneyksli að mínum dómi og mér allsendis óviðkomandi,“ segir Þorvaldur í bréfi sínu.
Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Samstöðvarinnar og einn af stofnendum Sósíalistaflokksins, greindi frá því á vef Samstöðvarinnar í dag að kurr væri á meðal fólks sem tengdist gerð myndarinnar á fyrri stigum hennar.
Þannig hefði sænski leikstjórinn Bosse Lindquist verið skráður sem handritshöfundur í kynningarefni fyrir myndina en þegar myndin var sýnd var hann sagður einn þriggja leikstjóra. Í umfjöllun Samstöðvarinnar kemur fram að Lindquist hafi sagt sig frá verkinu fyrir löngu síðan vegna ósættis um hvert SagaFilm vildi fara með söguna. Vissi hann ekki af því að sýna ætti myndina.
Þá segir Samstöðin frá því að Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Heimildarinnar, sé skráður sem ráðgjafi við gerð myndarinnar en hann, líkt og Þorvaldur nú, hafi farið fram á að nafn hans verði afmáð. Myndin sé ekki í neinu samræmi við þá ráðgjöf sem hann veitti.
Myndin hefur verið gagnrýnd talsvert á samfélagsmiðlum síðustu daga. Marinó G. Njálsson, sem var stofnfélagi í Hagsmunasamtökum heimilanna á sínum tíma, tjáði sig til dæmis um myndina á Facebook-síðu sinni. Samtökin voru stofnuð í ársbyrjun 2009 í kjölfar efnahagshrunsins á haustmánuðum 2008.
„Vonbrigði að þessi þáttur var nær allur helgaður rannsóknum á yfirmönnum bankanna, en ekki afleiðingum gjörða þeirra fyrir almenning í landinu,“ sagði hann meðal annars.
Ásta Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins og núverandi formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, tók undir og sagði meðal annars: