Bandaríska fyrrum íþróttakonan Mary Lou Retton berst fyrir lífi sínu á gjörgæslu sökum sjaldgæfrar tegundar af lungnabólgu.
Retton sem er aðeins 55 ára er ein af bestu íþróttamönnum allra tíma, en hún vann gull í fjölþraut á Olympíuleikunum árið 1984 í Los Angeles, þá aðeins 16 ára gömul. Hún vann einnig tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun, og er einn ástsælasti iþróttamaðurinn vestanhafs. Árið 1984 var hún einnig valin Íþróttamaður ársins (e. Sportsperson of the Year) af tímaritinu Sports Illustrated.
Nýjustu tíðindin af Retton hafa valdið óhug meðal aðdáenda hennar. Í söfnun sem dóttir hennar, McKenna Kelley, setti í gang á Spotfund, kemur fram að Retton hefur verið á gjörgæslu í viku. Segir dóttir hennar að Retton hafi ekki getað andað sjálf, en ekki koma frekari upplýsingar fram þar sem dóttirin segist virða friðhelgi móður sinnar.
„Hæ öll. Við systurnar þurfum ykkar hjálp. Frábæra mamma mín, Mary Lou, er með sjaldgæfa tegund af lungnabólgu og berst fyrir lífi sínu. Hún getur ekki andað án aðstoðar. Hún hefur verið á gjörgæslunni í viku. Vegna virðingar við hana og hennar friðhelgi þá ætla ég ekki að setja inn frekari upplýsingar. En ég vil þó segja að hún er ekki með tryggingu. Ef að þið getið hjálpað okkur á einhvern hátt, með því að biðja fyrir mömmu og/eða aðstoðað okkur fjárhagslega með sjúkrahúsreikningana.
Allt, hvað sem er, myndi hjálpa okkur fjölskyldunni og mömmu. Þakka ykkur öllum svo mikið!“