Þann 29. september var karlmaður sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni.
Maðurinn var ákærður fyrir kynferðislega áreitni, líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum. Hann var í ákæru sagður hafa kysst og káfað innan- og utanklæða á brjóstum og kynfærum stjúpdóttur sinnar á þáverandi heimili þeirra, þegar stúlkan var 11 og 12 ára. Einnig var hann sakaður um að hafa rassskellt stúlkuna.
Rannsókn lögreglu á málinu hófst eftir að lögreglu barst bréf frá barnavernd en starfsmaður skóla þar sem stúlkan var nemandi skýrði barnavernd frá því að stúlkan hefði sagt honum frá kynferðisofbeldi stjúpföður síns.
Stúlkan sagði einnig móður sinni frá ofbeldinu sem gekkst við því í skýrslutöku hjá lögreglu. Sjálf sagðist hún aldrei hafa séð mann sinn sýna kynferðislega hegðun gagnvart stúlkunni en hann hefði kannski rassskellt hana og skammað hana enda væri hann strangari en hún. Hún vissi því ekki hverju hún ætti að trúa.
Þess skal getið að fólkið er erlent en flutti til Íslands tveimur árum áður en brotin áttu sér stað, eða árið 2017, en brotin áttu sér stað árið 2019.
Í samtali við starfsmann hjá Barnavernd sagði stúlkan að stjúpfaðir hennar hefði strokið henni innanklæða bæði um brjóst og milli fóta. Þá hefði hann kysst hana á óviðeigandi hátt og síðan spurt hvort henni þætti þetta óþægilegt. Þegar hún sagði svo vera þá sagði hann: „Ég hélt þú vildir þetta af því að þú klæddir þig þannig.“
Ákærði neitaði sök fyrir dómi. Dómurinn taldi misræmis gæta í framburði hans, sem og móðurinnar, en framburður stúlkunnar að mestu leyti trúverðugur. Var meðal annars stuðst við viðtöl sem tekin voru við hana í Barnahúsi er hún var 13 ára. Um þetta segir í dómnum:
„Brotaþoli sagði ákærða, sem hún kallaði pabba, hafa snert hana í fleiri en eitt skipti og hefði henni fundist það óþægilegt. Sagði hún það hafa gerst þegar þau bjuggu í Y og hún hefði verið ein í herbergi. Sagði hún að þetta hefði gerst á morgnana þegar hún var í rúmi sínu og ákærði hefði komið inn í herbergi hennar til að vekja hana. Hún hefði þá verið klædd í náttkjól og nærföt undir kjólnum og hefði ákærði snert hana alls staðar. Merkti hún við þau svæði sem ákærði hefði snert hana á teikningu af líkama, á brjóst og kynfærasvæði. Sagði brotaþoli að ákærði hefði snert hana á þessum svæðum bæði utan- og innanklæða og hefði þetta gerst á sama hátt á næstum hverjum morgni.“
Að öllum gögnum virtum taldi dómari sannað að maðurinn hefði gert það sem hann var sakaður um í ákæru. Var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi en 9 mánuðir eru skilorðsbundnir og því fær hann aðeins 3ja mánaða fangelsi.
Hann var ennfremur dæmdur til að greiða stúlkunni 1,2 milljónir króna í miskabætur.
Dóminn má lesa hér.