Nú eru tæp fimm ár liðin síðan Anne-Elisabeth Hagen hvarf frá heimili sínu í Lørenskog í útjaðri Osló. Fyrstu tíu vikurnar eftir hvarfið rannsakaði lögreglan það sem mannrán þar sem lausnargjalds var krafist.
Lagði lögreglan gríðarlega vinnu í rannsóknina og hélt henni vandlega leyndri til að koma í veg fyrir að mannræningjarnir fréttu að lögreglunni hefði verið tilkynnt um hvarf Anne-Elisabeth.
Málið tók síðan óvænta stefnu þegar eiginmaður Anne-Elisabeth, Tom Hagen, var handtekinn vegna gruns um að hann væri viðriðinn hvarf hennar. Það hefur ekki sannast en hann hefur enn stöðu grunaðs í málinu.
En svo aftur sé vikið að fyrstu vikum rannsóknarinnar þá skýrði Tom frá því hvað gerðist þennan örlagaríka dag. Hann hafði farið í vinnu en þegar Anne-Elisabeth svaraði ekki þegar hann hringdi í hana, varð hann órólegur og ók heim til að kanna með hana. Þetta var 31. október 2018.
Þegar hann kom heim fann hann aðeins hótunarbréf með lausnargjaldskröfu. Var þar sett fram krafa um að fá níu milljónir evra greidda í lausnargjald ef hann vildi sjá eiginkonu sína aftur á lífi. Einnig var tekið skýrt fram að ef hann myndi tilkynna lögreglunni um hvarf hennar, yrði Anne-Elisabeth drepin.
Eftir smá umhugsun ákvað Tom að hafa samband við lögregluna og hringdi hann í neyðarnúmer hennar. Honum voru gefin fyrirmæli um að aka til næstu bensínstöðvar til að hitta lögreglumenn. Þetta er um fimm mínútna akstur.
Hann hitti lögreglumenn þar og fylgdi þeim það sem eftir lifði dagsins. Hann notaði því ekki Citroen Picasso bifreið sína meira þann daginn.
Ósamræmi
Lögreglan vildi ganga úr skugga um að Tom hefði sagt satt um ferðir sínar þennan dag og því var starfsmaður norsku vegagerðarinnar, ásamt rannsóknarhópi sem hann stýrði, fenginn til að rannsaka Citroen bifreiðina og afla gagna um notkun hennar þennan dag.
Tveimur vikum síðar var skýrsla hans tilbúin. Í henni kom fram að bifreiðinni hefði verið ekið 89 km þennan dag.
Það passaði illa við frásögn Tom um að hann hefði aðeins ekið til og frá vinnu og til bensínstöðvarinnar. Þetta eru 10 til 12 km.
Um mánuði síðar skilaði maðurinn nýrri skýrslu þar sem hann sló því föstu að Tom hefði ekið 89 km.
TV2 segir að í byrjun september á þessu ári hafi lögreglan gefið út viðamikla ákæru á hendur manninum. Þar kemur fram að hann hafi ekki haft neina möguleika á að vita hversu marga kílómetra Citroen bifreiðinni var ekið þann 31. október 2018. Segir að maðurinn hafi breytt aflestrarskýrslu ökutækisins til að láta líta út fyrir að hann hefði aflað gagna sem sýndu fram á 89 km akstur.
Ekki liggur fyrir af hverju maðurinn falsaði akstursupplýsingarnar.
Talsmaður lögreglunnar sagði að hún hefði vitað um langa hríð að maðurinn hefði falsað upplýsingarnar og að það þurfi að vega og meta áhrif þess á rannsóknina.