Hann stal ekki senunni vegna kósakkakórsins sem hann tók með eða vegna safíreyrnalokkanna sem hann gaf Kneissl eða vegna allra öryggisvarðanna og öryggisráðstafananna sem fylgdu komu hans. Hann stal senunni með því að bjóða Kneissl upp í dans.
Myndir af austurrískum ráðherra, í faðmi Pútíns á dansgólfinu og að hneigja sig fyrir honum að dansinum loknum, fóru eins og eldur í sinu um heiminn.
Upptakan af Kneissl þótti táknræn fyrir ráðherrann og þjóð sem falbauð sig Rússlandi Pútíns og það á tíma þar sem Vesturlönd reyndu að draga úr samskiptunum við Rússland.
Nú hefur Kneissl aftur komist í fréttirnar fyrir samskipti sín við Pútín og Rússland. Að þessu sinn vegna þess að hún er flutt til Rússlands. Hún flutti fyrst í bæ sem er í um 5 klukkustunda akstursfjarlægð frá Moskvu en síðan flutti hún til St Pétursborgar þar sem hún býr nú.
Hún segir sjálf að hún hafi verið „ofsótt“ í Evrópu. Hún hefur reglulega komið fram í rússneska áróðursmiðlinum RT, sem er rekinn af rússneskum yfirvöldum, hún tekur þátt í rússneskum kaupsýsluviðburðum og ráðstefnum og athygli hefur vakið að hún ver innrás Rússa í Úkraínu og útskýrir ástæður hennar.
Kneissl er ekki ein í sjálfskipaðri útlegð sinni frá lýðræðinu í Evrópu. Á Telegram sagði hún að hestarnir hennar tveir hafi verið fluttir til Rússlands með flugvél frá rússneska flughernum. Kötturinn hennar fékk einnig far til Rússlands.
Mál Kneissl hefur enn einu sinni vakið athygli umheimsins á tvískinnungi í samskiptum Austurríkis við Rússland.
Kneissl, sem stendur utan stjórnmálaflokka, var fengin til að gegna embætti utanríkisráðherra af Frelsisflokknum FPÖ sem er hægrisinnaður þjóðernisflokkur.
Almennt séð þá hafa austurrískir stjórnmálamenn og elíta landsins ekki verið feimin við að bjóða rússneskum ráðamönnum upp í dans. Fyrr á árinu skýrði Der Spiegel frá því að austurríski kaupsýslumaðurinn Siegfried Wolf hefði sent bréf til Pútíns þar sem hann bauðst til að endurreisa lamaðan rússneskan bílaiðnaðinn gegn því að fá milljarða að láni frá Kreml.
Austurríski Raiffeisen Bank International sér í dag um 40% af öllum greiðslum Rússa til útlanda. Rúmlega helmingur tekna bankans kemur frá viðskiptum tengdum Rússlandi. Á síðasta ári hagnaðist bankinn um sem nemur 560 milljörðum íslenskra króna á þessum viðskiptum og hann hefur ekki í hyggju að hætta þeim.