fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Erlendur fjölmiðill greinir frá stríði Kleópötru við Samkeppniseftirlitið

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 31. janúar 2023 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Höfnun Samkeppniseftirlitsins á kaupum Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Gunnars ehf. (áður Gunnars Majones) hefur vakið mikla athygli. Meira að segja erlendir fjölmiðlar hafa sýnt málinu áhuga. Fjölmiðillinn GCR, sem sérhæfir sig í fréttum af samkeppnismálum, greinir frá málinu á forsíðu. Í greininni kemur fram að á Íslandi þurfi fyrirtæki að tilkynna til samkeppnisyfirvalda um samruna ef samanlögð ársvelta þeirra er yfir þremur milljörðum íslenskra króna og ef tvö eða fleiri af fyrirtækjunum sem í hlut eiga eru með veltu yfir 300 milljónum. KS og Gunnars falla undir þetta og þurftu að tilkynna um kaup KS á Gunnars ehf. til Samkeppniseftirlitsins sem ógilti kaupin eftir um sjö mánaða athugun.

GCR ræðir stuttlega við Sævar Þór Jónsson, lögmann og ráðgjafa fyrirtækisins. Segir Sævar að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvort ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verði áfrýjað. Það sé mjög kostnaðarsamt og erfitt að standa í slíkum málarekstri fyrir lítið fyrirtæki á borð við Gunnars ehf. Fyrirtækið hafi nú þurft að sæta skoðun eftirlitsins í sjö mánuði og því sé ef til vill vænlegra núna að nota kraftana til að finna annan kaupanda. Sævar lýsir því yfir að hann telji veltuhámark fyrirtækja sem stefna á samruna vera of lágt í íslenskri löggjöf.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins segir meðal annars að með samrunanum myndi myndast markaðsráðandi staða á markaði fyrir hreint majónes og aðrar tilbúnar, kaldar sósur. Sameinað fyrirtæki hefði orðið það stærsta á þessum markaði og fengi mikla yfirburði yfir helsta keppinautinn, Kjarnavörur. Með samrunanum hyrfi mikilvægur keppinautur af sviðinu og með honum mikilvægt samkeppnislegt aðhald. Ennfremur telur stofnunin að samruninn myndi valda skaðlegum útilokunaráhrifum á markaðnum.

Að þessu viðhorfi hæðist Morgunblaðið um helgina í dálkinum Staksteinar. Er Samkeppniseftirlitið þar uppnefnt „Sósueftirlitið“ og vitnað í pistil eftir verkfræðinginn Geir Ágútsson sem spyr hvort skattgreiðendur þurfi „virkilega að borga fólki í þægilegri innivinnu há laun til að standa í aðskilnaði sósuframleiðenda á örsmáum markaði sem að auki er opinn fyrir innflutningi frá erlendum sósuframleiðendum?“

Morgunblaðið tekur undir með Geir og varpar fram þessari spurningu:

„Dettur einhverjum í hug að með þessu sé Samkeppniseftirlitið að þjóna hagsmunum almennings? Ef til vill með svipuðum hætti og þegar það lætur loka verslunum á landsbyggðinni í þágu íbúanna þar?“

Önnur kaup KS gætu hafa haft áhrif á ákvörðunina

Við skoðun á vef Samkeppniseftirlitsins kemur í ljós að á sama tíma og eftirlitið lá undir feldi vegna kaupa KS á majonesfyrirtækinu þá hafði það til athugunar kaup KS á nokkrum öðrum fyrirtækjum, meðal annars veitingahúsakeðjunni Gleðipinnar sem kaupfélagsveldið keypti í félagi við Háa Klett ehf. Sú spurning vaknar hvort stækkun KS á markaði á þeim tíma sem kaupin á Gunnars voru til athugunar kunni að hafa haft áhrif í þá átt að Samkeppniseftirlitið rifti kaupunum. Aðspurður segir Sævar Þór að svo kunni að vera.

„En það er mjög sligandi fyrir fyrirtæki að fara í gegnum sjö mánaða ferli af þessu tagi þegar eigandinn hefur gert ráð fyrir að vera búinn að selja.“

Aðilar sem DV hefur rætt við hafa bent á að veltuhármark félaga í samrunaferli hafi ekki fylgt vísitölu í að minnsta kosti tvö og hálft ár. Einnig þurfi að hafa í huga að aðilar sem kjósi að kaupa upp smærri framleiðendur á matvælamarkaði hljóti eðli máls samkvæmt að vera stórir á íslenskan mælikvarða.

Batnandi rekstur hjá Kleópötru

Gunnars ehf. hét upphafilega Gunnars Majones. Vörumerkið er afar sterkt í vitund þjóðarinnar en vegferð fyrirtækisins tók skrautlegar beygjur með óvæntri innkomu rithöfundarins og spákonunnar Kristbjargar Kleópötru Stefánsdóttur, sem var ráðin forstjóri árið 2009. Hún hafði ekki verið tengd við fyrirtækjarekstur fram að þeim tíma.

Árið 2014 varð Gunnars Majones gjaldþrota en Kleópatra keypti eignir þrotabúsins á aðeins 62 milljónir króna og hélt rekstrinum áfram undir nafninu Gunnars ehf.

Samkvæmt heimildum DV hefur rekstri fyrirtækisins verið snúið til betri vegar að undanförnu eftir erfiða tíma. Fyrirtækið mun hafa staðið höllum fæti um tíma en töluverðar hagræðingaraðgerðir munu hafa átt sér stað.

Sævar Þór vildi ekki ræða þau mál við DV en sagði að margir hafi sýnt áhuga á að kaupa fyrirtækið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“