fbpx
Laugardagur 25.mars 2023
Fréttir

Örlagaríkar hárlengingar Önnu – Dæmd í fimm og hálfs árs fangelsi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 26. janúar 2023 15:50

Héraðsdómur Reykjaness.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Anna Lefik Gawryszczak, tæplega fimmtug kona með pólskt ríkisfang, var þann 16. janúar dæmd í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir innflutning á miklu magni af amfetamínbasa, samtals 3.800 ml með ríflega 40% styrkleika. Atvikið átti sér stað þann 14. ágúst árið 2022.

Efnin voru falin í vínflöskum í farangri Önnu. Hún var stöðvuð af tollvörðum í flugstöð Leifs Eiríkssonar og við skoðun á farangri hennar og samferðakonu hennar fundust vínflöskurnar, sem þóttu grunsamlegar. Konurnar voru að koma með flugi frá Varsjá. Í Varsjá segist  hún hitt mann að nafni Marek sem hafi beðið hana um að flytja með sér til Íslands fjórar vínflöskur og færa manni einum að gjöf. Bað hún vinkonu sína um að taka tvær af flöskunum í sinn farangur en hún tók hinar tvær sjálf.

Anna og samferðakona hennar búa í Póllandi en ekki í Varsjá. Hún fór til Varsjá til að gangast undir hárlengingar en í gleðskap hitti hún mann tengdan þessum Marek og þar bar á góma væntanleg Íslandsferð kvennanna sem Anna hafði verið að skipuleggja í nokkurn tíma. Marek sjálfan sagðist hún þekkja lítinn deili á en hann hafi haft allt frumkvæði að samskiptum þeirra og afhent henni flöskurnar.

Fyrir dómi sagðist Anna reka fyrirtæki í Póllandi, fjárhagur hennar væri þokkalegur en hefði þó skaðast af völdum Covid- faraldursins.

Anna neitaði sök í málinu og segist ekki hafa grunað hvert raunverulegt innihald flaskanna var.

Dómurinn taldi framburð Önnu vera fjarstæðukenndan og ekkert lægi fyrir í málinu sem renndi stoðum undir hann. Til dæmis hefði hún ekki getað veitt neinar upplýsingar um margnefndan Marek sem á að hafa fengið hana til að flytja flöskurnar. Enn fremur hafi ekki fengist neinar upplýsingar um hverjum vínflöskurnar fjórar voru ætlaðar. Auk þess hafi ummæli Önnu við tollverði á Keflavíkurflugvelli ekki samrýmst framburði hennar fyrir rétti en þar sagðist hún hafa keypt flöskurnar til að fara með í partí á Íslandi.

Anna var sakfelld í málinu og dómurinn er þungur, fimm og hálft ár. Þó telur dómarinn ekki liggja fyrir að hún hafi haft veg og vanda af skipulagningu smyglsins. Í dómsniðurstöðu segir:

„Hvorki af framburði ákærðu eða vitna né af gögnum máls verður nokkuð ráðið um það hvort einhver annar hafi staðið að skipulagningu innflutningsins eða fjármögnun hans. Ákærða hefur greint frá því að hafa sjálf greitt fyrir ferð hennar og samferðarkonu hennar og annast bókun gistingar, þótt þær hafi báðar borið á þann veg að gera ætti upp kostnað síðar. Jafnvel þótt litið verði svo á að ákærða hafi ekki haft áform um að flytja efnin til landsins ber hún refsiábyrgð á slíkum innflutningi enda lét hún sér að minnsta kosti í léttu rúmi liggja hvort í flöskunum reyndust vera þau efni sem um er að tefla en hún gerði engan reka að því að ganga úr skugga um að svo væri ekki og mátti ekki treysta því að ekki væri um fíkniefni að ræða í því magni sem raun var á, sbr. meðal annars sjónarmið í dómum Hæstaréttar í máli 716/2010 og 150/2009.“

Um ákvörðun refsingarinnar er einnig horft til þess hvað efnin sem hún flutti inn og voru ætluð til söludreifingar hér á landi eru hættuleg:

„Ákærða, sem fædd er árið 1973, hefur samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsett 5. október 2022, ekki áður sætt refsingu hér á landi, en ekkert liggur fyrir um sakarferil hennar í heimalandi hennar eða annars staðar. Við ákvörðun refsingar verður horft til þess að brot ákærðu er stórfellt. Er í því sambandi einkum horft til hinna verulegu hættueiginleika efnanna, styrkleika þeirra og magns, sem ætlað var til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Að öllu virtu og með vísan til dóma í sambærilegum málum þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í fimm og hálft ár. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald sem ákærða hefur sætt vegna málsins frá 15. ágúst 2022 að fullri dagatölu, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

Dóminn má lesa hér

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Aðstæður erfiðar og krefjandi við banaslysið í Glym

Aðstæður erfiðar og krefjandi við banaslysið í Glym
Fréttir
Í gær

Bandamaður Pútíns varar við – „Afleiðingarnar fyrir alþjóðalög verða gríðarlegar“

Bandamaður Pútíns varar við – „Afleiðingarnar fyrir alþjóðalög verða gríðarlegar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Minningarreikningur stofnaður fyrir systkini Þuríðar Örnu: „Skilur eftir sig tómarúm sem erfitt verður að fylla“

Minningarreikningur stofnaður fyrir systkini Þuríðar Örnu: „Skilur eftir sig tómarúm sem erfitt verður að fylla“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðir laut í lægra haldi fyrir Fæðingarorlofssjóði – Taldi að um hagsmunamál fyrir íslenska lækna væri að ræða

Móðir laut í lægra haldi fyrir Fæðingarorlofssjóði – Taldi að um hagsmunamál fyrir íslenska lækna væri að ræða
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir að Kínverjar hafi sent Rússum vopn með leynd

Segir að Kínverjar hafi sent Rússum vopn með leynd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gallharðir erlendir áróðursmeistarar Pútíns funduðu í Moskvu

Gallharðir erlendir áróðursmeistarar Pútíns funduðu í Moskvu