fbpx
Laugardagur 04.febrúar 2023
Fréttir

Hnakkrífast út af músagangi í lúxustjaldgistingu við Þrastarlund – Hyggst kæra Sverri Einar og Vilte

Björn Þorfinnsson
Miðvikudaginn 25. janúar 2023 13:42

Athafnamaðurinn Sverrir Einar Eiríksson og unnusta hans Vilte Vesta reka lúsuxtjaldgistingu við Þrastarlund

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breskur lögfræðingur, Nuala Toner að nafni, segir farir sínar ekki sléttar af lúxustjaldgistingu við Þrastarlund á Suðurlandi sem ber nafnið Golden Circle Domes – Glamping Experience.  Segist hún hafa þurft að yfirgefa gistinguna um miðja nótt vegna músagangs og annarra vandræða. Þá sakar hún eigendur og rekstraraðila gististaðarins, Sverri Einar Eiríksson og Vilté Vesta, um dónaskap og að hafa dreift óhróðri um sig og fyrirtæki sitt, lögfræðiþjónustuna Nualaw í Bretlandi, á netinu. Hún segist ætla að kæra Vilte og Sverrir Einar sem er þekktur athafnamaður sem rekur meðal annars Nýju Vínbúðina auk þess sem hann hefur komið að kaupum á gulli og demöntum, stundað lánastarfsemi, veitinga- og gistihúsarekstur, rekið starfsmannaleigu og fleira.

Hyggst leggja fram kæru

„Ég á tíma hjá lögreglunni hér úti [í Bretlandi]. Það er hegningarlagabrot að dreifa slíkum óhróðri um fólk hér ytra,“ segir Toner í samtali við DV. Þá segist hún hafa tilkynnt gististaðinn og rekstraraðilanna til  heilbrigðiseftirlitsins á Íslandi.

Forsaga málsins er sú að Toner keypti gistingu ásamt eiginmanni sínum í eina nótt af Golden Circle Domes í gegnum Booking.com. Um er að ræða svokallaða Glamping-gistingu sem er sett saman úr orðunum Glamourous og Camping, sumsé Glamping.

Eins og þessi orðaleikur bendir til þá er gistingin á talsvert hærra plani en hefðbundin tjaldgisting. Í umfjöllun Fréttablaðsins síðasta sumar fór Sverrir Einar yfir hugmyndir sínar varðandi reksturinn. Fyrst væri ætlunin að setja upp þrjú níðsterk og glæsileg glamping-tjöld, en með tíð og tíma væri ætlunin að tjöldin yrðu alls þrjátíu talsins. Tjöldin þrjú sem komið hafi verið upp væru alls 40 metrar að stærð,  með góðum rúmum, klósetti og eldhúskrók auk þess sem boðið er upp á herbergisþjónustu og að sjálfsögðu frítt wifi.

Glamping hefur stundum verið þýtt sem „Glæsilega“ á íslensku

Mýsnar voru kornið sem fyllti mælinn

Gistingin kostar enda ærinn skildingin, eða rúmlega 70 þúsund krónur nóttin. Toner greindi frá því í Facebook-hópnum Travel Iceland að um miðja nótt hafi hún og eiginmaður hennar orðið vör við að minnsta kosti þrjár mýs inni í tjaldinu sem kjömsuðu á matarafgöngum á gólfinu sem og skriðu ofan í poka með nesti parsins. Það hafi verið kornið sem fyllti mælinn og hafi þau flúið úr tjaldinu um miðja nótt og fundið annan gististað í Hveragerði.

Mýsnar mauluðu meðal annars Doritos
Mús að gæða sér á matarleifum á gólfinu

 

Í umsögn um gististaðinn segir Toner að fyrir utan músaganginn þá hafi margt annað verið í ólagi á gististaðnum. Gólfið hafi verið ískalt á sumum stöðum en sjóðheitt á öðrum, þrifnaði hafi verið ábótavant og mýsnar verið að kjammsa á matarleifum fyrri gesta, dýnurnar til að gista á hafi verið lélegar, reykur úr viðarofni hafi verið mikill og skilið eftir lykt í fötum auk þess sem að enginn CO2-mælir hafi verið í tjaldinu, þá hafi rakamyndun inni í tjaldinu orðið til þess að pollar hafi myndast á gólfinu. Pollarnir hafi lekið að rafmagnsofni sem geti verið stórhættulegt og að lýsingu hafi verið ábótavant.

Þá gagnrýnir Toner viðbrögð Viste við umkvörtunum sínum. Segist hún hafa hringt í hana þegar hjónin yfirgáfu gististaðinn og fengið þær upplýsingar að gistingin yrði endurgreidd. Það hafi síðan runnið á hana tvær grímur þegar Viste hafi boðið þeim 100 evru bætur en gistingin kostaði 450 evrur í heildina.

Segist hafa fengið óþægileg skilaboð og ljótar umsagnir

Segir Toner að tilkynnt hafi verið til Booking.com að hún og maðurinn hennar hafi ekki mætt á gististaðinn, svokallað „no show“, og að það hafi verið með ráðum gert til þess að tryggja að þau hafi ekki getað skilið eftir umsögn um Golden Circle Domes. Því hafi hún náð að breyta og eftir frekari erfið samskipti við rekstraraðilanna hafi hún skilið eftir slæma umsögn á Booking.com og deilt viðvörun sinni, þar á meðal myndunum af músunum, inn á nokkrar ferðasíður um Ísland.

Í kjölfarið hafi Sverrir Einar og Vilté síðan sent sér óþægileg skilaboð og skilið eftir ljótar umsagnir á Google um fyrirtæki sitt, lögfræðiþjónustuna NuaLaw, sem hafi meðal annars komið einkunn stofnunnar niður úr 5,0 í 3,3. Það segir Turner að sé hegningarlagabrot, eins og áður segir, og hyggst leggja fram kæru.

Ekki óeðlilegt að fólki sé svarað

Þegar DV hafði samband við Sverri Einar þá vísaði hann alfarið á unnustu sína Vilté sem sæi um rekstur Glamping-tjaldanna og hefði verið í samskiptum við umræddan viðskiptavin. Þegar að athugasemdirnar við lögfræðifyrirtæki Turner voru bornar undir hann sagði Sverrir Einar að það væri ekki óeðlilegt að fólki,  sem hefði dreift ósönnum óhróðri víða um samfélagsmiðla um rekstur þeirra, væri svarað.

Skilboð frá Sverri Einari sem Turner sendi DV skjáskot af

Í svari til DV segir Vilté  vissulega kannast við málið og segir að músaheimsóknin hafi vissulega verið óheppileg. Tjöldin séu hins vegar staðsett úti í skógi, þar sem mýs eru á ferð, og því geti slíkt komið fyrir ef fólk gæti ekki að sér og hafi tjaldið opið lengi án eftirlits. Þá vísi hún því alfarið á bug að þrifum hafi verið ábótavant enda hafi hún sjálf ásamt öðrum starfsmanni séð til þess að tjaldið væri í toppstandi áður en Turner og eiginmaður hennar mættu á svæðinu. Þá hafi tjaldið fyllst af reyk því að hjónin hafi lokað fyrir lofttúðuna sem sér til þess að reykurinn í viðarofninum komist út.

„En ég skil vel að fólk vilji ekki fá mýs inn á gististaðinn sinn og því bauð ég þeim 100 evru afslátt af gistingunni,“ segir Vilté. Að hennar sögn hafi Turner þá krafist þess að fá gistinguna endurgreidda sem og gistinóttina sem hjónin bókuðu í Hveragerði, einnig hafi þau beðið um að greitt væri fyrir hreinsun á fatnaði þeirra og að þau yrðu beðin formlega afsökunar.

„Þegar ég gekk ekki að því fóru þau að dreyfa út óhróðri og lygum um reksturinn okkar í að minnsta kosti sex Facebook-hópum auk þess sem að þau hafa tilkynnt okkur til allra mögulegra stofnanna,“ segir Vilté. Hún tekur undir orð Sverris Einars um að fólk sem hegði sér með slíkum hætti geti ekki kvartað yfir því að þeim sé svarað í sömu mynt.

„Við erum stolt af þjónustunni sem við veitum hér og bókanirnar hafa hrannast inn. Við erum með 9,0 í einkunn á Booking.com og höfum orðið vör við það að fjölmargir gestir hyggjast heimsækja okkur aftur,“ segir Vilté.

Ofbauð dónaskapurinn

Í samtali við Turner segir hún vissulega hafa óskað eftir hærri bætum en eðlilegt gæti talist en það hafi verið eftir að fokið hafi í þau hjónin fyrir meintan dónaskap rekstraraðilanna og tilraunum þeirra til að koma í veg fyrir að hægt væri að setja inn umsögn á Booking.com. Hún hafi fyllilega búist við því að samkomulag myndi nást um lægri bætur en að það hafi ekki gerst og deilan í kjölfarið stigmagnast.

„Þessi reynsla hefur verið mikið áfall. Óheiðarleiki þessa fólks og hatur er ótrúlegt. Ég vona innilega að íslenska lögreglan muni rannsaka þau. Við elskuðum Ísland en eftir þessa reynslu hafa tekið við svefnlausar nætur sem hafa skaðað minningar okkar af annars frábæru fríi með góðu fólki,“ segir Turner.

Hún segist aldrei hafa skrifað umsögn um neinn gististað áður en hjá því hafi ekki verið komist í þetta skiptið eftir ömurlega reynslu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Úkraínskir hermenn lýsa árásum Wagnerliða – Eins og uppvakningamynd

Úkraínskir hermenn lýsa árásum Wagnerliða – Eins og uppvakningamynd
Fréttir
Í gær

Segir að Rússar ætli að hefja stórsókn 24. febrúar

Segir að Rússar ætli að hefja stórsókn 24. febrúar
Fréttir
Í gær

Líkamsárás í Vesturbænum

Líkamsárás í Vesturbænum
Fréttir
Í gær

Stjúpfaðir í felum

Stjúpfaðir í felum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þeir eru augu úkraínska hersins við víglínurnar og fyrir aftan þær – „Það er mikið mannfall hjá okkur“

Þeir eru augu úkraínska hersins við víglínurnar og fyrir aftan þær – „Það er mikið mannfall hjá okkur“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

ESB-ríkin ætla að þjálfa 15.000 úkraínska hermenn til viðbótar

ESB-ríkin ætla að þjálfa 15.000 úkraínska hermenn til viðbótar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan óskar eftir vitnum að umferðarslysi

Lögreglan óskar eftir vitnum að umferðarslysi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fréttavaktin: Afskrifuð af skólakerfinu en er nú nemi við Háskólann í Flórída, uppbygging í Kerlingarfjöllum og Vetrarhátíð

Fréttavaktin: Afskrifuð af skólakerfinu en er nú nemi við Háskólann í Flórída, uppbygging í Kerlingarfjöllum og Vetrarhátíð