Kristinn Jens Sigurþórsson, síðasti sóknarpresturinn sem sat Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, birtir grein um biskupsmálið í Morgunblaðinu í dag. Mikla athygli vakti í sumar er í ljós kom að Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, situr núna í embætti í krafti ráðningarsamnings sem undirmaður hennar, framkvæmdastjóri biskupsstofu, gerði við hana eftir að skipunartími hennar í embætti var runninn út.
Í grein sinni fer Kristinn yfir hlut forseta Kirkjuþings, Drífu Hjartardóttur, í málinu. Drífa er fyrrverandi þingmaður og veltir Jens því fyrir sér hvort reynsla hennar af stjórnmálum hafi ekki komið að neinu gagni í málinu. Hann skrifar:
„Greinarhöfundur hefur af illri nauðsyn fylgst með stjórnsýslu þjóðkirkjunnar undanfarin ár. Má ljóst vera að tilgangurinn er þar alloft látinn helga meðalið. Umfjöllunin í sumar um kirkjuna hefur því ekki komið á óvart. Birtist fyrsta fréttin á forsíðu Morgunblaðsins hinn 25. júlí undir fyrirsögninni: „Biskup ráðinn af undirmanni sínum – forseti kirkjuþings hafði ekki hugmynd um samninginn“. Í fréttinni er eftirfarandi haft eftir Drífu Hjartardóttur forseta kirkjuþings: „Ég frétti af tilvist þessa samnings í síðustu viku. Ég hafði ekki hugmynd um hann áður.“ Hún bætir síðan við: „Við vorum aldrei látin vita af þessu, hvorki forsætisnefnd kirkjuþings né kirkjuþingið sjálft.“
Drífa ber það sama á borð í samtölum við RÚV og segir ráðningarsamninginn algerlega hafa komið sér í opna skjöldu. Má greina að Drífa er ráðvillt en hún segist hafa farið „þrjátíu hringi til að vita hvað væri hægt að gera“. Gengst hún við mistökum og viðurkennir að skipunartími Agnesar sem biskups Íslands hafi runnið út um mitt ár 2022; vandinn hafi bara verið „hvað gera átti eftir það“.
Ráðaleysi Drífu vekur athygli og þá ekki síst vegna þess að reynsla hennar á sviði stjórnmálanna virðist ekki koma henni að neinum notum. Er sem hún viti hvorki í þennan heim né annan. Væri einhver búinn að segja sig frá trúnaðarstarfi af minna tilefni. Hvers vegna fór Drífa í svona marga hringi „til að vita hvað væri hægt að gera“? Blasti verkefnið ekki við? Var ekki einfaldast að fara að lögum og reglum? Ráðfærði hún sig ekki við lögfræðinga? Drífa segist „iðulega hafa verið að ræða tíma biskups, hvenær hann væri útrunninn“ og í því ljósi er tómlæti hennar eftirtektarvert.“
Kristinn bendir á að Drífa hafi ekki alltaf haldið að sér höndum í málinu því í lok júní 2022 hafi hún sent Agnesi biskupi bréf og tilkynnt að ráðning hennar yrði framlengd um eitt ár, til 30. júní 2023. Jafnframt yrði lagt fram þingmál á kirkjuþingi til að ákvarða biskupsþjónustu frá og með 1. júlí 2023. Það hafi þó ekki verið gert.
Einnig vekur Kristinn athygli á því að í lögfræðiálitum sem óskað var eftir um hæfi biskups var aldrei óskað eftir áliti um hæfi hennar í tengslum við að hún hafi ekki verið kjörin samkvæmt reglum:
„Drífa útskýrir aðgerðaleysi sitt með því að lagt hafi verið fram lögfræðiálit frá lögmanni Agnesar þar sem kveðið var á um að kjörtímabil hennar hefði endurnýjast 1. júlí 2022 „og skuli telja til næstu sex ára líkt og starfsreglurnar gefa til kynna“. Væri fengur að því ef þetta lögfræðiálit kæmi fram, sem forsætisnefnd kirkjuþings virðist hafa kyngt athugasemdalaust. Drífa er þó líklegast að vísa til „umsagnar“ Agnesar, dagsett 20. febrúar 2023, þar sem forseta kirkjuþings var gerð grein fyrir stöðu Agnesar með vægast sagt ófullkomnum hætti.
Sé sú raunin er athyglisvert að sjá að tæpri viku áður, hinn 14. febrúar 2023, leitaði lögfræðingur kirkjuþings, Guðmundur Þór Guðmundsson, til Trausta Fannars Valssonar dósents og fékk hann til að meta hæfi Agnesar í tilteknu starfsmannamáli. Lögfræðiálit Trausta Fannars, dagsett 27. febrúar 2023, er áhugavert fyrir það að í inngangi bendir hann á að fyrir liggi í málinu athugasemdir um að biskup Íslands skorti almennt hæfi til að gegna embætti, þar sem Agnes hafi ekki verið kjörin til þess í samræmi við reglur. Síðan segir í álitinu: „Kirkjuþing hefur ekki óskað álits frá undirrituðum um það álitamál og er því ekki að því vikið í samantektinni.“ Er hér um athyglisverðan vitnisburð að ræða því á sama tíma og forseti kirkjuþings var „iðulega að ræða tíma biskups, hvenær hann væri útrunninn og hvort það þyrfti að efna til kosninga eða ekki“, er kirfilega sneitt hjá því að fá lögfræðiálit um þann þátt málsins sem þó öllu skiptir. Vekur það grunsemdir en er þó með líkindum.“
Kristinn segir að Drífa hafi jafnan reynt að hjálpa Agnesi til að sitja áfram í embætti. Hún hafi í því skyni gert samning við hana um áframhaldandi skipun til eins árs þó að hún vissi að sá samningur væri á gráu svæði. „Virðist sem Drífa liggi í raun ekki á liði sínu við Agnesi og víli jafnvel ekki fyrir sér að feta gráa umdeilanlega stigu í því skyni,“ segir Kristinn og hefur efasemdir um að Drífa hafi sagt allan sannleikann í biskupsmálinu.