Ekki er vitað hvenær flugskeytin verða afhent en fram að þessu hafa Bandaríkjamenn verið hikandi við að láta Úkraínumenn fá flugskeyti af þessari tegund, meðal annars vegna þess að þeir eiga ekki mikið af þeim og af ótta við að það muni stigmagna stríðið.
ATACMS (Army Tactical Missile System) geta hæft skotmörk langt að baki víglínunum, til dæmis birgða- og vopnageymslur og bækistöðvar rússneska hersins. Rússar eiga nú þegar í erfiðleikum með birgðaflutninga vegna árása Úkraínumanna.
Það er hægt að skjóta ATACMS með HIMARS flugskeytakerfunum en Úkraínumenn hafa nú þegar nokkur slík kerfi til umráða.
TV2 hefur eftir Anders Puck Nielsen, hernaðarsérfræðingi hjá danska varnarmálaskólanum, að ATACMS-flugskeytin geti skipt töluverðu máli fyrir Úkraínu.
Hann benti á að síðan í maí hafa Úkraínumenn haft langdræg flugskeyti af gerðunum Storm Shadow, sem eru bresk, og SCALP, sem eru frönsk, til umráða. Þau draga einngi um 300 km. En ATACMS-flugskeytin eru enn öflugri og geta valdið miklu tjóni að sögn Nielsen.
Hann sagði einnig hugsanlegt að þetta hafi keðjuverkandi áhrif þar sem Þjóðverjar fylgi í fótspor Bandaríkjamanna og láti Úkraínumenn fá langdræg flugskeyti.
Hvað varðar notkun ATACMS-flugskeytanna sagði hann að Krím sé upplagt skotmark fyrir þessi flugskeyti. Hægt verði að nota þau til að hæfa brýr og innviði á Krím. Úkraínumenn hafi gert margar árásir á skagann síðustu tvær vikur og valdi miklu tjóni. Má þar nefna að á föstudaginn skutu Úkraínumenn tveimur flugskeytum á höfuðstöðvar rússneska Svartahafsflotans á Krím. Segja Úkraínumenn að æðstu herforingjar Svartahafsflotans hafi setið á fundi í byggingunni þegar þeir gerðu árásina og hafi margir þeirra látist í henni.