Anton Kristinn Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ, telur að sporna þurfi við innflutningi á lambakjöti hingað til lands. Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísir.is í dag.
Anton skrifar:
„Innflutningur á lambakjöti hefur færst í vöxt á undanförnum árum og er það bæði selt í matvöruverslunum hérlendis og einnig á veitingamarkaði, meðal annars mötuneytum og veitingahúsum. Færst hefur í vöxt að minni kjötvinnslur kaupi slíkar afurðir og endurselji á veitingamarkaði, þíði kjötið sem kemur frosið til landsins, leggi í kryddlög og selji svo til stóreldhúsa og matvöruverslana.
Slíkt athæfi getur verið afar villandi fyrir neytendur, þar sem pakkningar sem erlenda lambakjötið eru í eru oft á tíðum með íslenskum fánaröndum eða allavega íslenskt nafn á kjötvinnslunni.“
Hann segir að fólk geti ekki verið visst um að kjötið sem það snæðir sé íslenskt:
„Þú, sem neytandi, getur ekki verið þess fullviss þegar þú borðar á veitingahúsi eða í mötuneyti á þínum vinnustað að lambakjötið sé frá Íslandi. Þetta er sá veruleiki sem við búum við í dag.“
Anton bendir á að á tímabilinu júlí 2022 til febrúar 2023 hafi verið flutt inn hátt í 15 tonn af kinda- eða geitakjöti og kom það mestmegnis frá Spáni. Hann segir að hækka þurfi tafarlaust tolla á innflutt lambakjöt tli að verja íslenska bændur sem berjist í bökkum:
„Með því að setja skorður á innflutninginn og hækka verndartolla stuðlum við sem þjóð að betri starfsskilyrðum bænda og vinnum markvisst að því að tryggja sjálfbærni og um leið fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar.“