Birtir hafa verið tveir úrskurðir kærunefndar jafnréttismála sem féllu þann 27. júlí en í báðum tilvikum hafði Akureyrarbær betur gegn konum sem töldu sér hafa verið mismunað við ráðningu á sex slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum í sumarafleysingar árið 2022.
Auglýst var eftir sumarstarfsmönnum í janúar á seinasta ári en í auglýsingu kom fram að helstu verkefni starfsins væru útköll og æfingar vegna slökkviliðs, sjúkraflutningar, þjálfun, æfingar, endurmenntun og umhirða tækja og búnaðar. Menntunar- og hæfnikröfur voru tilgreindar sem gild ökuréttindi til að stjórna vörubifreið, iðnmenntun sem nýtis tí starfi slökkviliðsmanna eða sambærileg menntun, jákvætt hugarfar og færni í mannlegum samskiptum. Eins var gerð krafa um góða líkamsburði, andlegt og líkamlegt heilbrigði, reglusemi og háttvísi, góða sjón og heyrn, rétta litaskynjun og vammleysi. Umsækjendur þurftu að standast þrekpróf og læknisskoðun auk annarra inntökuprófa, svo sem prófi sem kannaði lofthræðslu og getu til að vera innilokaður. Fór svo að 13 umsóknir bárust um störfin og að lokum fengu þrír karlar og þrjár konur ráðningu.
Af úrskurðum kærunefndar má ráða að tvær konur sem ekki fengu ráðningu töldu sér hafa verið mismunað á grundvelli kyns eða aldurs. Verður nú gert grein fyrir málunum hér fyrir neðan.
Annað tilvikið varðaði konu sem er hjúkrunarfræðingur að mennt með 10 ára starfsreynslu sem slíkur. Hún hafði einnig hlotið grunnmenntun í sjúkraflutningum og hafði starfsreynslu sem sjúkraflutningamaður sumar 2021 og tveggja vikna starfsreynslu hjá slökkviliði Akureyrar á svokölluðum dagbíl. Hún var boðuð í viðtal við varaslökkviliðsstjóra í febrúar 2022 þar sem henni var tilkynnt að hún hefði ekki hlotið starfið. Meðal annars var vísað til aldurs hennar, að hún hafi ekki greint nægilega vel á milli þess að vera hjúkrunarfræðingur og sjúkraflutningamaður og að hún hafi lent í vanda í innilokunarprófi og fallið í lofthræðsluprófi.
Konan benti á að þetta væri nokkuð ósanngjarnt mat þar sem lofhræðslupróf, þar sem hún átti að klifra upp 28 metra stiga brunabíls og leysa þar púslþraut, hafi farið fram í gulri veðurviðvörun. Hún hafi tekið prófið í tengslum við fyrri umsókn um starf hjá slökkviliðinu en ekki látin gangast undir það aftur fyrir þessa umsókn og ekki greint frá því að hún hafi fallið fyrr en í áðurnefndu viðtali.
Hún taldi sér hafa verið mismunað þar sem aðrir hefðu verið ráðnir með minni menntun og reynslu. Hún hafi fengið þá skýringu að ætlunin væri að yngja upp í starfsmannahópi en á sama tíma hafi karlmaður fengið ráðningu sem er eldri en hún. Henni hafi eins verið greint frá því að hjúkrunarfræðimenntun gerði hana ekki hæfari en aðra þar sem menntun í t.d. háriðn og hjúkrunarfræði væri lögð að jöfnu í umsóknarferlinu.
„Þá hafi það sært hana að heyra að varaslökkviliðsstjóri hefði fengið fregnir af því að einhverjir yfirmenn hefðu heyrt hana tala illa um skjólstæðinga og samstarfsfólk. Kærandi telur þetta ekki vera sannleikanum samkvæmt en þetta hafi ekki verið borið undir núverandi yfirmenn sem voru meðmælendur hennar. Aldrei hafi fallið skuggi á vammleysi hennar og orðspor.“
Hún gerði einnig athugasemd við mat á líkamlegu atgervi hennar, en hún hafi fengið lélega einkunn þar þrátt fyrir að standast þrek- og styrktarpróf. Hún starfi sjálf við heilsufarsmat á fólki víða um landið, hlaupi tugi kílómetra í viku hverri og hafi sótt æfingar árum saman. Þetta sé því niðurlægjandi mat á eiginleikum hennar.
Akureyrarbær hafnaði því að mismunun hafi átt sér stað í málinu. Konan hafi fallið á lofthræðsluprófi og það eitt og séð útilokað hana sem umsækjanda. Færni í mannlegum samskiptum sé mikilvægur þáttur starfsins, jafnvel mikilvægari en menntun og reynsla. Aldur hennar hafi heldur ekki haft áhrif þó svo að tekið hafi verið fram að það væri markmið slökkviliðs að tryggja endurnýjun starfshóps þar sem meðalaldur sé nú 42 ár og muni fjöldi starfsmanna ná fimmtugsaldri á næstu árum. En hér hafi þó verið um sumarstarf að ræða þar sem aldur hafi ekki skipt máli. Konan sé lofthrædd, hafi klifrað upp stigann af óöryggi og þurft mikla leiðsögn í innilokunarprófi. Varðandi tilvitnuð ummæli sem konan var talin hafa haft uppi um skjólstæðinga þá hafi það að mati varðstjóra brotið í bága við trúnaðarskyldu, en ekki hafi verið nauðsynlegt að bera þetta undir meðmælendur hennar því að hún hafi fallið á lofthræðsluprófi og því ekki komið til greina við veitingu starfsins.
Kærunefnd taldi að ástæður hefðu verið málefnalegar þegar konunni var neitað um starfið. Hún hafi undirgengist prófið 30 dögum áður vegna annarrar umsóknar og því ekki nauðsynlegt að láta hana gangast undir nýtt.
Hin konan sem kvartaði til kærunefndar er einnig hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún stóðst þrek- og styrktarpróf og stóðst þar að auki innilokunar- og lofthræðslupróf. Hún hafði 14 ára starfsreynslu sem hjúkrunarfræðingur og lokið alþjóðlegum endurlífgunarnámskeiðum fyrir börn og fullorðna ásamt samskiptanámskeiðum í meðferð slasaðra sem sjúkraflutningamenn á hærra menntunarstigi þurfi á að halda.
Varaslökkviliðsstjóri tók við hana starfsviðtal þar sem slökkviliðsstjóri steig til hliðar sökum 20 ára vináttu sinnar við eiginmann konunnar. Í kjölfarið var henni kynnt að hún hefði ekki fengið ráðningu, og sagði konan að það hafi meðal annars verið sökum þess að hún væri of gömul, sökum þess að maður hennar væri starfsmaður slökkviliðsins og ekki væri verið að leita að hjúkrunarfræðingum. Eins væri of lítið skápapláss í kvennaklefanum og konan væri of mikið menntuð og þar að auki feimin.
Konan er fertug og því yngri en meðalaldur í slökkviliðinu. Ekki sé heimilt að mismuna umsækjendur sökum aldurs eða sökum þess að maki þeirra vinni á sama vinnustað. Eins hafi af 13 umsækjendum aðeins fjórir verið karlmenn og af þeim hafi þrír fengið ráðningu.
Akureyrarbær hafnaði því að mismunun hefði átt sér stað í málinu. Frammistaða konunnar í starfsviðtali hafi orðið til þess að hún var ekki ráðin en hún hafi ekki komið vel úr því. Hún hafi svarað spurningum með eins atkvæðis svörum, verið mjög feimin og haft sig lítið frammi. Hún hafi verið lokuð og viðtalið mjög þvingað þar sem konan horfði ekki í augun á þeim sem spurði. Áhersla sé við ráðningu á samskiptahæfni sem ekki var talið að konan byggi yfir. Mikil áhersla sé hjá umdæminu á starfsanda eftir að allt hafi logað í illdeilum vegna kæru- og eineltismála á árunum 2010-2015. Tekist hafi að ráða úr þeirri stöðu og andinn í dag góður og nauðsynlegt að halda þeim árangri áfram.
Í kjölfar þess að henni var neitað um starfið lýsti eiginmaður hennar yfir óánægju og var þá haldinn fundur til að rökstyðja ákvörðunina til að forðast misskilning. Þar hafi konan setið hljóð og látið eiginmanninn tala sínu máli. Ummæli á þeim fundi um skápapláss í kvennaklefa hafi verið til að sýna hversu þröngur stakkur konum væri sniðinn hvað aðstöðu varðar, en það hafi lengi verið baráttumál að fá bætta aðstöðu. Það hafi þó ekki verið notað til að réttlæta það að hún fékk ekki starfið. Vissulega hafi margt sem sagt var á óformlegum fundi þar sem ákvörðunin var rökstudd verið óheppilegt og hafi nú verið ákveðið að hætta slíkum fundum.
Kærunefnd taldi að Akureyrarbær hafi byggt á málefnalegur ástæðum þegar tekin var ákvörðun um að ráða ekki konuna í sumarafleysingar. Því var ekki um brot gegn lögum að ræða.