fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Dauði Prigozhin styrkir stöðu Pútín – „Skilaboðin eru skýr“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 29. ágúst 2023 07:04

Yevgeny Prigozhin og Vladimir Pútín

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vladimir Pútín hefur styrkt sig í sessi í Rússlandi eftir dauða Yevgeny Prigozhin. Þetta er álit Abbas Gallyamov, fyrrum ræðuritara Pútíns, sem nú býr í Ísrael og veitir reglulega álit sitt á málefnum Rússlands. Gallyamov ræddi við CNN um stöðu Pútín en hann segir í stuttu máli að Pútín hafi verið að missa þá óttablöndnu virðingu sem hefur tryggt honum öll völd í landinu í rúma tvo áratugi. Dauði Prigozhin, sem lést þegar einkaflugvél brotlenti þann 23. ágúst síðastliðinn, hafi sent þau skýru skilaboð til rússneskra valdamanna að Pútín væri enn við fulla stjórn og óhlýðni gegn honum gæti reynst dýrkeypt.

Eins og þekkt er hafði Prigozhin komist upp með um langt skeið að vera Pútín óþægilegur ljár í þúfu auk þess sem hann gagnrýndi elítu landsins í gríð og erg og sagði í raun efsta lag þjóðarinnar stunda rányrkju gagnvart almenningi. Botninn tók svo úr þegar að Prigozhin blés til skammvinnrar uppreisnar með Wagner-málaliðum sínum en uppreisnin var blásin af fljótlega þegar allt útlit var fyrir borgarastyrjöld innan Rússlands.

Leikreglurnar hafa ekki breyst

Flestir töldu að Prigozhin myndi ekki líta dagsins ljós aftur eftir það frumhlaup en því kom það mörgum á óvart að fljótlega eftir uppreisnina hafi Prigozin náð vopnum sínum á ný. Hann hafi náð að halda viðskiptaveldi sínu að mestu leyti saman. „Það virtist sem svo að þú gætir valdið Pútín verulegum vandræðum en samt komist upp með það. Prigozhin virtist vera að gera það ágætlega, hann fékk ný verkefni, hann gerði stóra samninga við stjórnvöld, rannsókn á meintum hegningarlagabrotum hans var hætt og hann fékk aftur þau verðmæti sem yfirvöld gerðu upptæk eftir uppreisnina,“ segir Gallyamov.

Það hafi virst sem leikreglurnar í Rússlandi hafi breyst og að ekki þyrfti að óttast Vladimir Pútín eins og áður. Dauði Prigozhin hafi sent þau skýru skilaboð að leikreglurnar væru enn þær sömu. Ef þú óhlýðnast Pútín þá kembir þú ekki hærurnar.

Rétt er þó að geta þessa að stjórnvöld í Kreml harðneita allri aðkomu sinni að dauða Prigozhin.

Gallyamov segir að staðan sé fljóknari varðandi almenning í landinu. Prigozhin hafi verið afar opinber persóna og upplifun margra sé sú að hann hafi verið stunginn í bakið. Það fari ekki vel í fólk og því líklegt að óvinsældir Rússlandsforseta hafi aukist við fráfall athafnamannsins ódæla.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“