Á þriðjudaginn verður fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem héraðssaksóknari hefur höfðað á hendur manni fyrir nauðgun og líkamsárás sem átti sér stað fyrir meira en fjórum árum.
Ofbeldi átti sér stað á heimili konunnar og öðrum ótilgreindum stað en í persónuverndaðri ákæru er atvikum lýst svo:
„fyrir nauðgun og líkamsárás, með því hafa aðfaranótt laugardagsins 29. júní 2019 að […], í Reykjavík, með ofbeldi og ólögmætri nauðung haft önnur kynferðismök en samræði við […], A, kennitala […], án hennar samþykkis, en ákærði skipaði henni að girða niður um sig, glennti fætur hennar í sundur, þuklaði á kynfærum hennar og stakk fingrum í leggöng hennar og síðar á þáverandi heimili A að […], í Reykjavík, slegið A margsinnis í andlit og líkama, tekið hana hálstaki, haldið fyrir munn hennar og nef og hrint henni í gólfið allt með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á efri vör, línulaga lóðréttar húðblæðingar framan á hálsi, mar á vinstra herðablaði, eymsli á hægri efri upphandlegg, smá mar á vinstri efri upphandlegg og eymsli á hægri fót.“
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Fyrir hönd konunnar er krafist 3,5 milljóna króna í miskabætur.