„Ég er búinn að kæra manninn fyrir barnsrán en getuleysi kerfisins til að bregðast við í svona aðstæðum er algjört. Lögreglan hefur tjáð lögmanni mínum að það verði engar rannsóknaraðgerðir í málinu á næstunni en ég kærði hann í mars,“ segir kona sem segist ekki fá að hitta þriggja ára gamlan son sinn þó að hún og barnsfaðir hennar hafi sameiginlega forsjá yfir barninu.
Hjónin slitu samvistum í desember á síðasta ári en í febrúar 2023 fór maðurinn með drenginn út á land, í um 700 km fjarlægð frá Reykjavík, að sögn konunnar undir því yfirskini að um væri að ræða nokkurra vikna frí. Drengurinn býr núna hjá föðurnum úti á landi og móðirin segist hafa mætt fullkomnu ráðleysi í kerfinu við að endurheimta barnið. Hún fór í eitt skipti til heimilis mannsins úti á landi til að freista þess að fá drenginn til sín en þau samskipti leystust upp í handalögmál. Í kjölfarið kærði hún manninn fyrir líkamsárás.
„Barnavernd neitar að aðhafast nokkuð í málinu og segir að þetta sé ágreiningur um forsjá. En þarna hefur átt sér stað tálmun gagnvart mér í langan tíma og það ætti að vera sjálfstætt barnaverndarmál,“ segir konan. Hún bendir á að hvorki barnavernd, lögregla né sýslumaður virðist geta höggvið á hnút sem þennan. „Getuleysi kerfisins er algjört.“
Konan og maðurinn voru í hjónabandi í sex ár. Konan stríddi áður við fíkn en hefur að eigin sögn verið edrú í fimm ár. Hún misfór hins vegar með kvíðalyf í desember síðastliðnum en hefur náð sér upp úr þeirri sprungu. Var þar um að ræða lyf sem henni voru ávísuð af lækni.
Konan heldur því fram að maðurinn hafi marghótað henni að nota lyfjafíkn hennar sem vopn í forsjárdeilum við hana. Hún sakar hann um andlegt og líkamlegt ofbeldi yfir sex ára tímabil sem leitt hafi til þess að hún sleit sambandinu og sótti um skilnað. „Sjúkragögn sem lögreglan hefur aflað frá Læknavaktinni sýna komur hennar þangað í gegnum tíðina þar sem hún hefur greint frá heimilisofbeldi og verið með áverka sem í a.m.k. einu tilfelli vitnuðu um endurtekið ofbeldi,“ segir í tölvupósti lögmannsins til lögreglunnar, sem hún hefur afhent DV, en þar er reynt að fylgja eftir kæru á hendur barnsföðurnum.
DV hefur undir höndum sálfræðivottorð konunnar en þar segir sálfræðingur hana vera með einkenni áfallastreituröskunar, þunglyndis og kvíða vegna aðskilnaðar við soninn og meints ofbeldis eiginmannsins. Kemur þar fram að konan gerir sér grein fyrir áhrifum tengslamyndunar á þroska barnsins og hún hafi miklar áhyggjur af áhrifum móðurleysisins á velferð hans.
Konan hefur kært manninn fyrir brot gegn 193. grein hegningarlaganna fyrir að nema drenginn á brott, en hún er eftirfarandi:
„Hver, sem sviptir foreldra eða aðra rétta aðilja valdi eða umsjá yfir barni, sem ósjálfráða er fyrir æsku sakir, eða stuðlar að því, að það komi sér undan slíku valdi eða umsjá, skal sæta sektum … 1) eða fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt.“
Þrátt fyrir þetta hefur lögregla ekki viljað aðhafast í málinu og ber fyrir sig þá vinnureglu að barn sé ekki fjarlægt af heimili nema það sé talið í mikilli hættu. Er það mat lögreglu að svo sé ekki í þessu tilviki.
Í tölvupósti lögmanns konunnar til lögreglu segir hins vegar:
„Hann hefur svipt umbj. minn valdi og umsjá yfir barni hennar án þess að hafa til þess heimildir. Þetta hefur staðið yfir í hálft ár og sýnist mér enginn vilji hjá honum að rétta það óréttlæti. Brot hans er eins skýrt og þau geta orðíð, það varðar hegningarlög og umbj. minn þarf að treysta ykkur til að veita henni raunverulegt liðsinni. Við alvarlegustu brotum liggur 16 ára fangelsi og þetta mál verður að fá einhvern framgang hjá lögreglunni. Það er ótækt að hann komist upp með þetta athugasemda og átölulaust og ætti málið að vera komið í farveg hjá ákærusfviði nú þegar.“
Í barnalögum er kveðið á um tálmun og segir í 48. grein laganna:
„Umgengni við barn samkvæmt úrskurði, dómi, dómsátt foreldra eða samningi þeirra, staðfestum af sýslumanni, verður þvinguð fram með dagsektum tálmi sá sem hefur forsjá barns hinu foreldrinu eða öðrum sem eiga umgengnisrétt við barnið að neyta hans.“
DV ræddi stuttlega við lögmann sem hefur sáttamiðlun að aðalstarfi. Viðkomandi aðili vill ekki láta nafns síns getið vegna viðkvæmra starfa sinna. Sá lögmaður segir að þetta mál sé ekki einsdæmi og mörg dæmi séu um óheimilan brottflutning barna frá öðru foreldri og tálmanir. Jafnt konur sem karlar verði þolendur slíks í forsjárdeilum.
„Það má líkja þessu við Bermudaþríhyrning sem samanstendur af lögreglu, sýslumanni og barnavernd, þar sem lögregla bendir á sýslumann, sýslumaður á barnavernd og barnavernd á lögreglu. Lögregla ber fyrir sig að ekki sé hægt að fjarlægja barn af heimili nema það virðist vera í mikilli hættu. Barnavernd hefur ekki lagaheimildir til að aðhafast. Hnúturinn er áfram óleystur.“
Viðkomandi lögmaður segir að þetta sé mjög vond staða og það þurfi að vekja athygli á þessu. Þá sé útbreiddur misskilningur að feður séu frekar tálmaðir en mæður, það hafi breyst og rödd feðra sé orðin sterkari í kerfinu en áður var.
Forsjárdeilumál milli fólksins er nú rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Krefjast þau bæði fullrar forsjár yfir drengnum en hafa nú sameiginlega forsjá. Vandi konunnar er fullkomlega óleystur og hún fær ekki að njóta samvista við son sinn að óbreyttu.