Þrír aðilar rændu ungan dreng í gærkvöldi og beittu hann ofbeldi. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en þar segir að drengurinn hafi verið krafinn um skó og skartgripi. Að endingu náðu ofbeldismennirnir símanum af fórnarlambi sínu og neituðu að láta hann fá hann aftur. Drengurinn komst undan á hlaupum en sjá mátti áverka á andliti hans eftir hnefahögg.
Í miðbænum var tilkynnt um konu að reyna að komast inn í bifreiðar. Þegar lögreglu bar að neitaði konan að segja til nafns og var í verulega annarlegu ástandi. Konan verður vistuð í fangaklefa þar til hægt verður að ræða við hana.
Einnig hafði lögregla afskipti af ungmennum að reykja kannabis á skólalóð. Þegar lögreglan kom á vettvang kom í ljós að allt fólkið var komið yfir 18 ára aldur og játuðu þau reykingarnar fúslega. Hins vegar var kannabisið allt uppurið þegar lögreglu bar að.
Þá stöðvaði lögregla ökumann sem reyndist undir áhrifum fíkniefna. Sá var handtekinn og reyndist þá ennfremur vera vopnaður hníf. Hann var leystur úr haldi eftir blóðsýnatöku.