Indverjar vonast til þess að skrá sig á spjöld sögunnar í dag með því að vera fyrsta þjóðin sem lendir geimfari á suðurpól tunglsins. Ráðgert er að lendingarfar frá geimfarinu Chandrayaan-3 lendi á hnettinum í dag en ef það tekst verða Indverjar aðeins fjóra landið sem tekst að lenda geimfari á tunglinu en áður hafa Bandaríkin, Kína og Rússland afrekað það.
Chandrayaan-3 flauginni var skotið á loft þann 14. júlí síðastliðinn og því hefur ferðin tekið tæpar sex vikur. Til samanburðar skutu Rússar flauginni Luna-25 á loft þann 10. ágúst en tíu dögum síðar brotlenti geimfarið á tunglinu eins og frægt varð.
Kapp er því mögulega best með forsjá þegar kemur að geimferðalögum en tilgangur Chandrayaan-3 var meðal annars að sinna rannsóknum á sporbaug um tunglið áður en haldið væri til lendingar.
Markmið geimferðar Indverja er að leita að og rannsaka ís á tunglinu sem möguleiki er talinn á að leynist í djúpum gígum á suðurpólnum. Sé slíkur ís til staðar er hann talinn vera lykillinn að því að mannkynið geti haslað sér völl á tunglinu í framtíðinni.
Indverjar hafa þó upplifað sinn skerf af vonbrigðum þegar kemur að tunglferðalögum en árið 2019 freistuðu þeir þess að lenda lendingarfari geimflaugarinnar Chandrayaan-2 á tunglinu. Sú lending misheppnaðist þó og lendingarfarið brotlenti.
Ljóst er því að Indverjar, og heimsbyggðin öll, mun fylgjast spennt með framgangi verkefnisins í dag.