Öryrki sem býr á Rauðarárstíg keypti sér bíl síðastliðinn föstudag en á aðfaranótt sunnudags var bíllinn ónýtur eftir að keyrt hafði verið á hann af miklu afli og ekið af vettvangi.
„Bíllinn er gjörónýtur,“ segir Sigurður Héðinn, nágranni mannsins, en hann hefur vakið athygli á málinu á Facebook. Siguður rekur verslunina Haugur Vinnustofa að Rauðarárstíg 1, sem sérhæfir sig í fluguhnýtingum. Bíleigandinn býr við Rauðarárstíginn.
Að sögn Sigurðar hefur atvikið verið kært til lögreglu og er málið í rannsókn. Sigurður hefur ekki upplýsingar um hvort ákeyrslan hafi náðst á eftirlitsmyndavélar eða ekki. Hann skrifar eftirfarandi um málið á Facebook:
„Þannig er mál með vexti að einn nágranni minn á Rauðarstígnum keypti sér bíl síðastliðinn föstudag og hann kom að bílnum sínum svona aðfaranótt sunndags. Málið er hann er öryki og hefur ekki efni á að standa undir þessu tjóni. Þvílík mannvonska og siðblinda þarna á ferð og því bið ég ykkur Fésara vini mína að deila og leggjum allt kappa að finna viðkomandi sem olli þessu tjóni.
Bifreiðin sem viðkomandi var á hlýtur að hafa tjónast verulega.“
Þeir sem gætu haft upplýsingar um málið eru beðnir um að hafa samband við lögreglu eða við Sigurð Héðinn á Facebook-síðu hans.