Þann 18. ágúst síðastliðinn var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjaness yfir manni sem sakaður var um stórfellt brot í nánu sambandi gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni á tímabilinu 1. janúar 2018 til 17. maí 2020. Var maðurinn sakaður um að hafa ítrekað, endurtekið og á alvarlegan og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt ógnað lífi, heilsu og velferð konunnar með hótunum um líkamsmeiðingar, m.a. með því að brjóta á henni lappirnar, henda henni niður stiga, brjóta á henni höfuðkúpuna og segja henni ítrekað að hann gæti meitt hana.
Maðurinn var meðal annars ákærður fyrir að hafa tekið konuna hálstaki, hrint henni, haldið henni niðri og hótað að höfuðkúpubrjóta hana. Einnig hafi hann í annað skipti tekið um háls hennar og úlnliði og haldið henni uppi við vegg þegar hún gekk með barn þeirra, og slegið hana utan undir.
Maðurinn var sakaður um að hafa ítrekað hótað konunni og kallað hana illum nöfnum, skoðað síma hennar og samfélagsmiðlareikninga hennar án hennar vitundar eða leyfis, bannað henni að fara út nema í fylgd hans og ógnað henni með því að brjóta innanstokksmuni, sjónvarp, myndir og glerdiska. Hann kýldi í gegnum vegg, kastaði öskubakka í parket. Hann var sakaður um að hafa notað fjármuni konunnar og sagt við hana á meðan hún gekk með barn þeirra að ófætt barnið væri sæðisköggull sem hann gæti tekið frá henni.
Undir rekstri málsins var kvaddur til geðlæknir til að framkvæmda geðrannsókn á manninum og leggja læknisfræðilegt mat á hvort ástand hans væri með þeim hætti að hann teldist sakhæfur. Niðurstaða læknisins var að hinn ákærði hefði frá ársbyrjun 2018 haft nánast stöðug einkenni um geðveiki sem gerðu hann ófæran um að hafa stjórn á því ofbeldi sem hann var ákærður fyrir. Ástand hans versnaði síðan bara á því tímabili sem var ákært fyrir. Taldi læknirinn manninn ósakhæfan.
Maðurinn játaði brot sín fyrir dómi og viðurkenndi brotaskyldu gagnvart sinni fyrrverandi.
Niðurstaðan er sú að hinum ákærða er ekki gerð refsing sökum ósakhæfis. Hann var hins vegar dæmdur til að greiða konunni 800 þúsund krónur í miskabætur.
Dóminn má lesa hér.