Vilhjálmur Bretaprins sætir nú harðri gagnrýni í heimalandinu vegna þeirrar ákvörðunar sinnar að fljúga ekki til Ástralíu og vera viðstaddur úrslitaleik HM þar sem Englendingar mæta Spánverjum í baráttu um titilinn eftirsótta. Ber Vilhjálmur við tímaskorti enda ærið ferðalag að leggja í.
Vilhjálmur, sem er mikill áhugamaður um knattspyrnu, gegnir heiðursembættinu forseti breska knattspyrnusambandsins og telja margir að honum renni blóðið til skyldunnar að vera á hinum sögulega leik en Englendingar hafa aldrei spilað til úrslita á HM kvenna.
Telja gagnrýnendur Bretaprinsins að því væri öðruvísi farið ef enska karlalandsliðið hefði náð að komast í úrslitaleikinn á HM og að þá hefði Vilhjálmur gert allt sem í hans valdi stæði til þess að vera viðstaddur þann leik.
Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, sætir sömuleiðis gagnrýni en hann hefur einnig ákveðið að halda sig heima fyrir og hvetja bresku ljónynjurnar áfram úr fjarska.