Lögreglan á Vesturlandi hefur staðfest í samtali við mbl.is að meint líkamsárás með dráttarvél sem átti sér stað í Dalasýslu á föstudag sé komin á hennar borð. Lögregla segist þó ekki hafa haft veður af málinu fyrr en í dag. Sá sem varð fyrir árásinni, Skúli Einarsson, tilkynnti þó atvikið í samskiptamiðstöð lögreglu á föstudag.
DV greindi frá málinu á mánudagskvöld:
Um er að ræða nýjustu vendingarnar í deilu fjölskyldu Ásmundar Einars Daðasonar ráðherra, en sá sem sakaður er um að hafa ekið á Skúla Einarsson, er Valdimar Einarsson. Báðir eru föðurbræður hans en faðir hans er Daði Einarsson, sem leikur stórt hlutverk í þessari deilu, sem snýst meðal annars um eignarhald á jörðinni Lambeyrar.
Aðdragandinn að meintri árás á föstudag var sá að Skúli Einarsson gleymdi tösku sinni á fjölskyldufundi sem haldinn var í deilunni að Dönustöðum á fimmtudaginn. Morguninn eftir komst hann að því að taskan var í vörslu bróður hans, Valdimars, sem hafði ekki skilað honum henni þrátt fyrir tækifæri til þess. Í töskunni voru fartölva Skúla og viðkvæm gögn.
Skúli ók á föstudaginn með dóttur sinni, Ásu, vestur, til að endurheimta töskuna. Þær tilraunir enduðu með því að Valdimar ók hann niður á dráttarvél sinni. Samkvæmt frétt mbl.is í dag hefur Valdimar ekki fengið töskuna frá Skúla.
Ása hefur áður kært meint skemmdarverk Daða, Valdimars og Ásmundar Daða, ráðherra, og segir hún forkastanlegt að lögregla hafi ekki aðhafst þegar vatnsveita á Lambeyrum var eyðilögð:
„Að þeir skuli ekki hafa mætt þá, það er bara út í hött. Það eru mörg tilvik þar sem eitthvað er á gráu svæði, eins og t.d. þegar Daði hefur verið að dreifa skít kringum húsin og minniháttar skemmdarverk,“ segir hún og bætir við að systurnar hafi skilning á því að lögreglan geti ekki varið tíma sínum í öll mál. Öðru gegnir hins vegar með vatnsveituna.
„Þetta var meiriháttar skemmdarverk sem stóð yfir í marga klukkutíma með stórvirkum vinnuvélum. Lögregla ber alltaf fyrir sig að þetta séu eignadeilur og að hún taki ekki þátt í eignadeilum. En það er bara kolólöglegt að grafa í sundur vatnsleiðslur, sama hver á landið.“
Ása segir að málið hafi verið kært til lögreglu og það sé í ferli.