Talið er að leigumorðingi í hefndarhug hafi skotið og drepið fyrrum kafbátaforingja í rússneska hernum sem bar ábyrgð á Kalibr-tundurskeytaárás sem drap 27 Úkraínumenn, þar á meðal marga óbreyta borgara. Hinn 42 ára gamli Stanislav Rzhitsky var skotinn fjórum sinnum í bakið og brjóstkassann þegar hann var úti að skokka í rússnesku borginni Krasnodar í árás sem var augljóslega þaulskipulögð.
Rzhitsky var úrskurðaður látinn á vettvangi en á honum fundust verðmæti eins og snjallúr og heyrnartól sem gefur til kynna að ekki var um rán að ræða.
Eins og áður segir er árásin á Rzhitsky, sem stjórnaði rússneskum kafbáti sem hélt til í Svarthafinu, talinn hafa verið hefndaraðgerð vegna tundurskeytaárás á úkraínsku borgina Vinnytsia sem átti sér stað þann 15.júlí í fyrra.
Telja rannsakendur að fylgst hafi verið með Rzhitsky í gegnum hlaupasmáforritið Strava sem hann notaði til að halda utan um útihlaup sín og tími árásarinnar hafi ekki verið nein tilviljun, um ári eftir árásina á Vinnytsia. Þá átti árásin sér stað á svæði þar sem engar öryggismyndavélar eru.
Meðal þeirra sem létust í árásinni á Vinnytsia var hin fjögurra ára gamla Liza Dmitrieva, sem sat í kerru við hlið móður sinnar Irinu. Irena lifði árásina en erlendir miðlar hafa bent á það að þannig vill til að hún er málkunnug forsetafrú Úkraínu, Olenu Zelenska, vegna upptöku á jólamyndbandi sem Irena kom að. Hvort að það tengist eitthvað málinu skal ósagt látið.
Rannsókn á morðinu stendur yfir í Rússland en yfirvöld hafa gefið út óskýra mynd af grunuðum einstaklingi – miðaldra manni sem skartaði ljósblárri derhúfu.