Tilkynnt var um mann sem var fastur í lyftu í fjölbýlishúsi miðsvæðis í Reykjavík í dag. Er lögreglu bar að höfðu slökkviliðsmenn aðstoðað manninn úr lyftunni. Varð honum ekki meint af.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig að lögreglu hafi borist tilkynning um einstakling sem var öskrandi inni í verslun í hverfi 108. Þá hafi óvelkomnum manni verið vísað á brott í hverfi 105 og öðrum í miðborginni.
Þá segir að lögreglu hafi borist nokkrar beiðnir vegna grunsamlegra mannaferða í hverfum 105 og 108. Ekkert saknæmt var hins vegar að sjá þegar lögregla kom á vettvang.
Tilkynnt var um innbrot í geymslur í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði. Málið er í rannsókn.