Eva María Daniels kvikmyndaframleiðandi er látin, 43 ára að aldri.
Kvikmyndavefurinn Klapptré greinir frá andlátinu og segir Evu Maríu hafa látist eftir langvarandi veikindi. Hún lætur eftir sig eiginmann og ungan son.
Eva María var ráðin kvikmyndaráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands í febrúar 2022. Á vef Klapptré kemur fram Eva María hafi fæðst þann 5. júlí 1979 og alist upp í Vogahverfinu í Reykjavík. Að loknu háskólanámi við Háskóla Íslands hélt hún til Kaupmannahafnar þar sem hún hóf nám í kvikmyndagerð. Hún hafi svo starfað hjá eftirvinnslufyrirtækinu The Mill í London og Company 3 í Bandaríkjunum, en árið 2010 hafi hún stofnaði sitt eigið framleiðslufyrirtæki, Eva Daniels Productions.
„Meðal kvikmynda sem Eva María hefur komið að sem framleiðandi eru Time Out of Mind (2014) eftir Oren Moverman með Richard Gere í aðalhlutverki, What Maisie Knew (2012) sem leikstýrt var af David Siegel og Scott McGehee og skartar Julianne Moore, Alexander Skarsgard og Steve Coogan í helstu hlutverkum, The Dinner (2017) eftir Oren Moverman með Richard Gere, Laura Linney, Steve Coogan, Rebecca Hall og Chloe Sevigny í helstu hlutverkum, Hold the Dark (2018) eftir Jeremy Saulnier með Jeffrey Wright og Alexander Skarsgård og Joe Bell (2020) eftir Reinaldo Marcus Green með Mark Wahlberg í aðalhlutverki.“