Árni Björn Björnsson, veitingamaður á Sauðárkróki, hvetur fólk sem svikið hefur verið í viðskiptum við mann sem gefur sig út fyrir að selja innflutt húss, smáhýsi, sánatunnur og fleira frá Austur-Evrópu, til lögreglunnar. Árni Björn segir manninn hafa svikið sig um 16 milljónir í viðskiptum vegna innflutts hús. Ekkert bólar hins vegar á húsinu, en komið er meira en ár síðan Árni Björn átti að fá húsið afhent.
Trölli vakti fyrst athygli á málinu, sem síðan var fjallað um í DV og fleiri miðlum.
„Ég hef fengið fimm eða sex hringingar á dag eftir að ég byrjaði að vara við honum,“ segir Árni Björn í samtali við Vísi. Segir hann að fleiri hafi einnig lagt fram kæru á hendur manninum, en Árni Björn telur svikin nema hátt í 200 milljónum króna. Neytendasamtökunum hafa borist ábendingar um tug milljóna svikastarfsemi mannsins sem segist flytja inn hús frá Austur-Evrópu.
„Ég óttast að það sé fullt af fólki sem á eftir að sjá þetta eða þorir ekki að stíga fram því það fylgir því viss skömm að láta svíkja sig svona,“ segir Árni Björn, sem hefur tekið saman upplýsingar um hvað fólk hefur greitt manninum, í byrjun var upphæðin 88 milljónir króna en nú er hún komin í 120 eða 130 milljónir.
Svikin kasta rýrð á aðra í stéttinni
„Aðrir aðilar sem hafa verið að flytja inn hús hafa hringt í mig og lýst yfir áhyggjum. Menn sem eru heiðarlegir og eru að skila húsum,“ segir Árni. Þessi starfsemi sé því að kasta rýrð á greinina í heild sinni. Fólk þori ekki að panta.
Árni Björn hvetur fólk til að mæta með öll gögn, samskipti, kvittanir fyrir innáborgunum og fleira á næstu lögreglustöð og kæra málið. Hann hefur heyrt að viðmót lögreglunnar sé ekki alls staðar jafn gott og sums staðar sé þess krafist að fólk panti tíma hjá rannsóknarlögreglumanni.
„Ef fólk telur að hann hafi brotið á sér getur það farið til lögreglu til að kæra og fengið málsnúmerið hjá mér. Þá er hægt að sjá hvort þetta sé örugglega sami maður,“ segir Árni Björn. Þannig munu kærur og rannsókn þeirra fara undir einn hatt.