Hlustandi hringdi inn í Bítið á Bylgjunni nýlega og lýsti þar raunum sínum eftir að vinnubíll, sem hlustandinn ók, varð fyrir tjóni. Umræddur hlustandi var enginn annar en Sturla Jónsson, sem varð þjóðþekktur í kjölfar mótmæla vörubílstjóra á Íslandi árið 2008, var áberandi í Búsáhaldabyltingunni og hefur í þrígang boðið sig fram til Alþingis og einu sinni farið í forsetaframboð. Sturla greindi Bítinu frá því að hann hafi verið í fullum rétti í áðurnefndu tjóni, en engu að síður hafi tryggingarfélag hans ákveðið að láta hann greiða virðisaukaskattinn vegna viðgerðiarinnar.
„Ég fékk hérna svolítið skemmtilegan póst í gær og reikning inn á heimabankann minn. Og krafan er frá tryggingarfélagi, Verði, og málið er að í vor þá er keyrt á mig og ég er í 100 prósent rétti, á vörubílinn hjá mér. Það gerist þannig að ég fer með bílinn í viðgerð – og þeir eiga að bæta tjónið því ég er í 100 prósent rétti – en þeir setja svo kröfu í heimabankann minn og vilja fá virðisaukann endurgreiddan af viðgerðinni á vörubílnum hjá mér – en ég er tjónþoli. Og þá er verið að krefja mig um að taka þátt í skjalafalsi og þá er búinn til reikningur á minn rekstur og það er skrifað að minn rekstur sé greiðandinn af reikningnum af tjóninu. Og ég á að setja hann í bókhaldið, ég á að fá virðisaukann til baka hjá ríkinu af þessari viðgerð, og svo á ég að borga tryggingarfélaginu hann.“
Sturla taldi ljóst að þarna væri verið að þvinga hann til að taka þátt í skattsvikum og reyndi því að hafa samband við lögreglu, sem vildi þó ekkert aðhafast þar sem um einkamál, að þeirra mati, væri að ræða.
Þessu var svo fylgt eftir í Bítinu og degi síðar var rætt við Völu Valtýsdóttur, skattalögfræðing. Hún útskýrði að mál Sturlu væri ekki óeðlilegt. Þar sem Sturla hafi verið á vinnubíl sem notaður var í virðisaukaskattskyldri atvinnustarfsemi svo að virðisaukaskattur greiddur vegna viðgerðar kemur á móti innheimtum virðisaukaskatti af starfsemi Sturlu á téðum vinnubíl. Því ætti enginn auka kostnaður að falla á Sturlu, og hann fengi tjón sitt bætt að fullu. Hann fengi innskattinn.
„Hann á að gjaldfæra þennan reikning en tekjufæra bæturnar á móti. Svo þetta gengur allt upp.“
Eða með öðrum orðum, þar sem viðgerðin fari í bókhald atvinnurekstur sem er virðisaukaskattsskyldur, þá geti Sturla skráð virðisaukaskattinn af viðgerðinni sem innskatt og þar sem virðisaukaskattur sem starfsemi hans þarf að greiða í ríkissjóð er mismunur á útskatti og innskatti, leiði þetta til þess að hann þurfi að borga í heildina minna í ríkissjóð. Því sé ekki um raunverulegt tjón að ræða hvað virðisaukaskattinn varðar, en meginregla skattaréttar sé sá að bæta aðeins raunverulegt tjón.
Haukur Viðar Alfreðsson, doktorsnemi í hagfræði, varð hugsi vegna málsins og ákvað að koma hugleiðingum sínum á framfæri í pistli sem hann birti hjá Vísi í morgun. Þar bendir hann á að ef tjónþolinn hefði verið venjulegur einstaklingur að lenda í tjóni á bifreið sinni hefði tryggingarfélagi borið að greiða honum allan kostnað vegna viðgerðarinnar, þar með talið virðisaukaskattinn. Um þá skyldu sé ekki deilt.
„En engu að síður hefur borið á því að tryggingarfélög bjóði tjónþolum samkomulagsbætur sem oft eru aðeins 20-30% af hinum fullu bótum sem tjónþoli á rétt á. Til að rökstyðja þessar skertu bætur vísa tryggingafélögin gjarnan til þess að ef greiddar eru bætur fyrir tjón þá sé engin vinna unnin og þar af leiðandi ber að draga virðisaukaskatt og launatengd gjöld frá bótafjárhæðinni. Vitanlega halda þessi rök engu vatni.“
Það sé meginregla í skaðabótarétti að tjónþolar eigi rétt á fullum bótum, sama hvort þeir ákveði að láta gera við tjónið eða ekki. Þar með liggi það í augum uppi að tjónþoli, sem ekki fær virðisaukaskatt eða önnur gjöld bætt, sé ekki að fá þær fullu bætur sem honum ber að fá lögum samkvæmt.
„Tjónþolinn getur einfaldlega ekki notað bótafjárhæðina til að láta gera við tjónið. Virði eigna hans hefur minnkað og tryggingarfélagið hefur hagnast á hans hlut.“
Haukur segir að tryggingarfélögin nýti sér það að vera í yfirburðastöðu gagnvart tjónþolum til að bjóða lægri samkomulagsbætur en tjónþolar eigi rétt á. Þarna sé tryggingarfélagið að treysta á það að tjónþolar þekki ekki lögin.
„Ég hef t.d. tilfelli á borðinu hjá mér þar sem tryggingarfélag stóð fast á sínu boði og sagði að samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar eigi tjónþoli ekki að hagnast á tjóni. Þá var athugavert að í útreikningum tryggingarfélagsins fylgdi jafnframt að sjálfsábyrgð tjónvalds var 80.000 kr. Tryggingarfélagið ætlaði sem sagt að hagnast sjálft um öll iðgjöld sem það innheimtir frá tjónvaldinum en láta hann sjálfan greiða allan sinn kostnað af tjóninu í gegnum sjálfsábyrgð sína, og á sama tíma að fá tjónþola til þess að tapa mismuninum af raun tapinu sem hann varð fyrir og brotinu sem hann fengi bætt! Ótrúleg ósvífni að detta svo til hugar að að ýja að því að það sé tjónþoli sem sé að reyna að koma út í plús!“
Haukur segir að þegar gildi samninga sé skoðað með hliðsjón af þeim aðstæðum sem leitt geta til ógildingar samkvæmt samningarétti þá sé stöðu aðila samnings gefið mikið vægi. Ljóst sé að mikill munur sé á fjárhagsstöðu, stærð og þekkingu á tryggingamálum hvað varði annars vegar félagið sjálft og hins vegar venjulegra einstaklinga sem við það semur.
„Það er því mjög áhugaverð spurning hversu margir hafa fallið í þessa gildru og hversu margir gætu gert kröfu um hærri bætur afturvirkt með dráttarvöxtum.“
Telur Haukur líklegt að þessi háttsemi eigi við um fleiri svið heldur en tjón á bifreiðum. Fyrir um ári síðan hafi fallið dómur í Hæstarétti í brunabótamáli þar sem tryggingarfélagið var gert að greiða 120 prósentum meira en það hafði upprunalega ætlað sér að greiða. Hafði félagið meðal annars borið því við að ekki bæri að greiða bætur sem jafngiltu hlutfalli virðisaukaskatts, en þeim rökum hafi Hæstiréttur rekið ofan í félagið.