Íslendingar eyddu 2,6 milljörðum króna í maímánuði í erlendri netverslun, sem er aukning um 31,4% á milli ára. Tæplega helmingur af innkaupunum eða rúmlega 1,2 milljarðar króna voru verslaðar í erlendum fataverslunum á netinu. Kemur þetta fram í tilkynningu Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV).
Fyrstu fimm mánuði þessa árs versluðu Íslendingar fyrir rúmlega tíu milljarða í erlendri netverslun og er aukningin töluverð frá síðasta ári þegar innkaup sama tímabils voru 9,3 milljarðar. Innanlands versluðu Íslendingar fyrir 17,3 milljarða króna, og er einnig aukning þar frá síðasta ári, þegar verslunin var 15,4 milljarðar.
„Íslendingar láta engan bilbug á sér finna þrátt fyrir stöðuna í samfélaginu,“ segir Magnús Sigurbjörnsson, forstöðumaður RSV, í samtali við Morgunblaðið, en að hans mati bitnar aukning í erlendri netverslun ekki á innlendri verslun. „Ein leið til að útskýra þetta er að fólk er að reyna finna sér ódýrari föt og hluti á netinu. Kannski er veðrið bara búið að vera svo leiðinlegt að fólk er meira fyrir framan tölvuna. Svo virðist sem að netverslun innanlands minnki ekki samhliða.“
Í flokknum lyf, heilsu- og snyrtivörur hefur verið 90,6% aukning á innkaupum erlendis frá milli ára. Íslendingar virðast fagna auknu framboði af áfengi hér heima en áfengisinnkaup erlendis frá hafa minnkað um 14,6% milli ára.