Lögreglunni á Suðurlandi hafa borist fjölmargar tilkynningar nú í kvöld vegna fólks sem gengur í hús á Selfossi og selur penna í nafni félags heyrnarlausra. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að hægt sé að staðfesta að umræddir söluaðilar séu sannarlega á vegum félags heyrnarlausra og eru íbúar hvattir til þess að taka vel á móti þeim.
Í tilkynningunni er tekið fram að lögreglan telur engu að síður ástæðu til að hrósa almenningi fyrir árvekni sína enda dæmi um að einstaklingar villi á sér heimildir og nýti til þess traust almennings til rótgróinna samtaka og málefna.