Banaslys varð í Vestmannaeyjum fyrr í dag þegar karlmaður féll af Ystakletti og í sjóinn. Mikið viðbragð var í kjölfar slyssins.
Karl Gauti Hjaltason lögreglustjóri í Vestmanneyjum staðfestir andlátið í samtali við mbl.is.
Tilkynning um slysið barst til lögreglunnar og var maðurinn var fluttur í land þar sem hann var úrskurðaður látinn. Lögreglan rannsakar nú tildrög slyssins. Í samtali við Mbl.is telur Karl Gauti líklegt að maðurinn hafi verið hluti af hóp sem var við smölun í klettinum í dag.
Samkvæmt heimildum DV er karlmaðurinn heimamaður og á áttræðisaldri.
Í tilkynningu frá lögreglu kl. 16.07 segir:
Kl. 13:40 í dag barst lögreglunni í Vestmannaeyjum tilkynning um að maður hafi fallið úr Ystakletti og hafnað í sjónum. Félagar úr Björgunarfélagi Vestmannaeyja héldu þegar á vettvang og náðu manninum úr sjónum en hann reyndist vera látinn. Maðurinn var búsettur í Vestmannaeyjum og var með hópi manna við smölun í klettinum þegar að óhappið varð og hátt fall á þeim stað sem maðurinn féll. Rannsókn á tildrögum slyssins stendur nú yfir. Vill lögregla þakka öllum viðbragðsaðilum og vottar aðstandendum samúð.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Einstaklingur féll af Ystakletti í Vestmannaeyjum og í sjóinn fyrir stuttu og eru viðbragðsaðilar við höfnina. Samkvæmt heimildum DV er mikið viðbragð á bryggjunni, sjúkrabíll og lögregla. Sagði heimildamaður sem er í bátsferð að hann hefði mætt björgunarbáti á fullri ferð á leið í land.
Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir í samtali við Vísi að unnið sé að því að koma manninum, sem hann veit ekki hvers kyns er eða á hvaða aldri, í land.
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við DV að björgunarskipið Þór hafi verið kallað út klukkan 13.40 vegna slyssins. Hefur hann ekki frekari upplýsingar um slysið að svo stöddu.
Orkumót 6. flokks drengja er í Eyjum nú um helgina og því mikill mannfjöldi í eyjunni.
Ystiklettur er austasti klettur norðurklettanna og stendur norður af Víkinni þar sem innsiglingin í höfnina er.