fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

„Virðist málinu þar með vera lokið án þess að nokkur beri ábyrgð á því að svona skelfilega hafi farið“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 30. júní 2023 12:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framkvæmdastjóri Geðhjálpar, Grímur Atlason, og formaður, Sigríður Gísladóttir, spyrja hvort það sé svo að enginn ætli að taka ábyrgð á andláti konu sem lést á geðdeild Landspítalans, og hvort enginn ætli að bregðast við þeim alvarlegu brotalömum í geðheilbrigðiskerfinu sem voru afhjúpaðar í dómsmáli þar sem hjúkrunarfræðingur geðdeildar var sýknaður af ákæru um manndráp af ásetningi.

Þau vekja athygli á málinu í pistli sem þau birtu hjá Vísi.

„Í ágúst 2021 dó sjúklingur á geðdeild 33C við Hringbraut. Um var að ræða veika konu með fjölþætta kvilla. Hún dó vegna þess að tveimur næringardrykkjum var þröngvað ofan í hana af hjúkrunarfræðingi á deildinni án þess að annað starfsfólk brigðist við. Hún kafnaði í kjölfarið. Viðkomandi hjúkrunarfræðingur var nýverið sýknaður í héraðsdómi af ákæru um manndráp af ásetningi og virðist málinu þar með vera lokið án þess að nokkur beri ábyrgð á því að svona skelfilega hafi farið.“

Þau velta því fyrir sér hvernig það geti átt sér stað í nútímasamfélagið að bráðveikur einstaklingur, sem leitaði sá sjúkrahús til að fá lækningu, hafi verið beittur slíku ofbeldi að bani hlaust af.

„Hvernig getur það gerst í nútímasamfélagið að enginn beri á því ábyrgð? Í allri umræðu um þetta mál er talað um sjúkling á geðdeild, í þeirri umræðu gleymist að þetta var manneskja.“

Grímur og Sigríður biðja landsmenn að setja sig í spor aðstandenda konunnar og velta því fyrir sér hvaða augum þeir hefðu litið málið ef þetta hefði verið þeirra ástvinur.

„Kannski mamma, systir eða frænka okkar.“

Það sé svo að hjúkrunarfræðingurinn, sem var ákærður og svo sýknaður, hafi aðeins verið lítið tannhjól í heilbrigðiskerfinu. Ekki eigi að gera lítið úr ábyrgð hennar, en málið sé þó stærra. Dómsmálið hafi varpað ljósi á veikleika í geðsheilbrigðiskerfinu á Íslandi þar sem undirmönnun, mikil starfsmannavelta, skortur á fagfólki, skortur á skilningi, þvinganir, nauðgun og ofbeldi þrífist. Velta þau Grímur og Sigríður fyrir sér hver beri ábyrgð á stöðunni.

Landssamtökin Geðhjálp hafi ítrekað bent á galla og brotalamir í kerfinu. Hafi notendur kerfisins, aðstandendur og starfsfólk eins vakið athygli á nauðung og þvingunum sem tíðkist í kerfinu og hafi ekkert með meðferð við geðrænum áskorunum að gera.

„Dæmi um þetta eru: heimsóknarbann, útivistarbann, innilokun á herbergi, tóbaksbann, símabann, kaffibann, lyfjaþvingun o.s.frv.“

Niðurstöður rannsóknar sem birtar voru fyrr á þessu ári hafi sýnt fram á að tíundi hluti þeirra sem hafi leitað á geðdeild á árunum 2014-2018 hafi verið beittir þvingaðri lyfjagjöf. Eins sé eftirlit með starfsemi geðdeilda í skötulíki.

Enginn virðist ætla að bera ábyrgð á þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í málaflokknum. Stjórnvöld hafi sýnt í verki að málið sé ekki í forgangi. Aðgerðaráætlun sem heilbrigðisráðherra hafi lagt fram sé ekki pappírsins virði þar sem ekkert fjármagn sé að baki henni og hafi ráðherra í engu tjáð sig um þær alvarlegu ábendingar sem hafi komið fram í áðurnefndu dómsmáli.

„Þetta er að gerast á hans vakt og hann ætti að bera á því ábyrgð. Því miður virðist það vera þannig að enginn ber ábyrgð á því sem miður fer innan heilbrigðiskerfisins. Það er sorglegt.“

Eins og kemur fram hér að ofan var hjúkrunarfræðingur ákærður fyrir manndráp af ásetningi fyrir að hafa þvingað næringadrykki ofan í konu sem dvaldi á geðdeild, en háttsemin leiddi til þess að konan lét lífið. Var umræddur hjúkrunarfræðingur sýknaður þar sem dómara taldi ósannað að hún hefði haft ásetning til að bana, en sérstaklega var tekið fram í dómi að ekki  hafi verið ákært fyrir gáleysisbrot og málið því ekki flutt fyrir dómstólum með tillit til þess. En af þeim orðum dómara má ráða að gáleysisbrot hefði geta komið til álita, þó ekki verði neitt fullyrt um hvort að slíkt hefði leitt til sakfellis eða sýknu.

Ekki er ljóst hvort ákæruvaldið ætli að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu
Fréttir
Í gær

Skarphéðinn stígur til hliðar sem dagskrárstjóri RÚV

Skarphéðinn stígur til hliðar sem dagskrárstjóri RÚV
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Verslunarstjóri ákærður fyrir nauðgun á fötluðum undirmanni sínum og tveimur andlega fötluðum ungmennum

Verslunarstjóri ákærður fyrir nauðgun á fötluðum undirmanni sínum og tveimur andlega fötluðum ungmennum