Fjórir til fimm aðilar réðust að ungum manni í miðborginni i nótt. Í dagbók lögreglu kemur fram að hópurinn hafi haft reiðhjól af fórnarlambi sínu sem þeir síðan skemmdu áður en þeir yfirgáfu vettvanginn. Málið er í rannsókn hjá lögreglu.
Eins og vant er þurftu lögreglumenn að glíma við ýmis verkefni í gærkvöldi og í nótt. Þannig var lögregla kölluð til í verslun í hverfi 108 út af óánægjum viðskiptavin en sjónarvottar töldu að slagsmál væru í uppsiglingu. Málið var leyst með tiltali.
Þá var lögreglan kölluð til út af meintum skemmdarverkum ungmenna í hverfi 109. Þegar lögreglu bar að garði voru ungmennin að leika sér og ekkert óeðlilegt í gangi.
Því miður voru síðan allmörg dæmi þess að ökumenn væru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum. Þau mál voru flest leyst á vettvangi og fara sína leið í kerfinu.