Körfuboltamaðurinn Eric Fongue var sakfelldur í Héraðsdómi Norðurlands eystra í gær fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot. Fongue var sakfelldur fyrir að valda alvarlegu bílslysi þann 9. nóvember 2021, þegar hann var leikmaður Þórs á Akureyri. Hlaut hann sextíu daga fangelsisdóm sem er skilorðsbundinn til tveggja ára.
Slysið átti sér stað með þeim hætti að Fongue, sem er Svisslendingur, keyrði suður þjóðveg 1 í Hörgársveit á 132 km/klst eftir vegarkafla á Moldhaugahálsi. Í bestu aðstæðum er leyfilegur hámarkshraði þar 90 km/klst. Segir í dómsorði að Fongue hafi ekið það óvarlega að hann hafi ekið bifreiðinni út í snjókrap úti í kanti vegarins og missti þar stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hann ók fyrir bifreið sem var að koma úr hinni áttinni.
Harður árekstur átti sér stað og slösuðust bæði ökumaður og farþegi umræddrar bifreiðar. Svo illa vildi til að ökumaður bílsins þjáist af beinsjúkdómnum oxterogenesis imperfecta sem er arfagengur sjúkdómur og veldur því að bein sjúklingsins eru mjög viðkvæm og brotna auðveldlega. Hlaut ökumaðurinn margvísleg beinbrot eins og útlistað er ítarlega í dómnum. Farþegi bílsins hlaut brot í bringubeini og brot á hægra hné.
Fongue slapp hins vegar vel frá slysinu sem hann bar ábyrgð á og þótti mikil myldi að hann skyldi ekki slasast alvarlega eins og greint var frá í frétt Vísis á sínum tíma. Þar kom fram að leikmaðurinn mætti á æfingu daginn eftir slysið. „Bíllinn er í tætlum. Það er ótrúlegt að hann skyldi sleppa lifandi,“ sagði Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, við það tilefni.