Brimborg hefur hafið framkvæmdir við uppsetningu á öflugustu hraðhleðslustöð landsins þar sem rafmagnsvinnuvél sér um jarðvinnu og aðföng eru flutt á verkstað á rafmagnssendibíl. Stöðinni hefur verið valinn staður á Flugvöllum í Reykjanesbæ stutt frá flugstöðinni. Um er að ræða stöð af Kempower gerð með hleðsluafköst allt að 600 kW og getur stöðin annað hleðslu átta ökutækja í einu af öllum stærðum og gerðum. Brimborg hefur samið við HS veitur um orku fyrir stöðina og hefur stór heimtaug þegar verið virkjuð. Stöðin verður opin öllum rafbílanotendum með e1 hleðsluappinu og opnar í sumar, eins og segir í fréttatilkynningu.
Stöðin er svokölluð fjöltengjastöð með átta öflugum CCS tengjum. Sex tengjanna geta afkastað 120 kWh á klukkustund fyrir venjulega rafbíla og til viðbótar eru tvö vökvakæld tengi sem geta annað allt að 375 kWh á klukkustund fyrir rafmagnsvörubíla, rafknúna hópferðabíla og rafmagnsfólksbíla sem vinna á hærri rafspennu.
Auðvelt aðgengi fyrir löng ökutæki og hreyfihamlaða
Stöðin er hönnuð á svipaðan hátt og bensínstöð með gegnum-akstri og því er mjög einfalt aðgengi að og frá öllum tengjum fyrir fólks,-sendi-, vöru- eða hópferðabíla og einnig fyrir bíla með ferðavagna og kerrur. Hönnun stöðvarinnar hefur miðað að því að einfalda aðgengi að og frá og tryggja gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Upphituð plön verða við stöðina, góð lýsing og öryggismyndavélar auk þess sem hluti af raforkunni verður fengin með sólarorkuveri sem reist verður á þaki þjónustuhúss bílaleigu Brimborgar þegar það rís sem mun draga úr álagstoppum á dreifikerfið.
Lykilhlekkur til útleigu rafbíla til ferðamanna
Stöðin verður mikilvægur hlekkur í rafvæðingu bílaleiguflota Brimborgar hjá Dollar Rent A Car og Thrifty Car Rental bílaleigunum sem er með aðstöðu til útleigu bíla á Flugvöllum. Bílaleigur Brimborgar hafa stækkað rafbílaflota sinn umtalsvert undanfarna mánuði meðal annars til útleigu rafbíla til erlendra ferðamanna.
Hraðari uppbygging hraðhleðsluinnviða fyrir hraðari orkuskipti
Brimborg opnaði nýlega tvær hraðhleðslustöðvar við Jafnasel 6 í Breiðholti (við MAX 1 og Vélaland verkstæðin nálægt Krónunni og Sorpu) sem einnig eru opnar öllum rafbílanotendum og aðgangur að þeim er einnig í gegnum e1 appið.
Í ljósi markmiða stjórnvalda um orkuskipti í vegasamgöngum þá er ljóst að fjölga þarf háhraða hraðhleðslustöðvum fyrir rafbílanotendur á Íslandi sem eru aðgengilegar bæði fyrirtækjum og einstaklingum fyrir allar gerðir ökutækja. Aðgengi fyrir hreyfihamlaða sem og aðra þarf að vera framúrskarandi og möguleiki að hlaða mörg rafknúin ökutæki í einu til að stytta biðtíma eftir hleðslu.
Nú þegar aka yfir 20 þúsund rafbílar um vegi landsins og stórir rafmagnsvörubílar hafa þegar hafið akstur en þetta er þó aðeins brot af þeim um 280 þúsund bílum sem eru á Íslandi sem þarf að skipta yfir í rafmagn. Rafvæðing þungaflutninga, en yfir 4000 þungabílar eru í flotanum og bílaleiguflotans sem telur yfir 25.000 bíla, er hafin.