Íslenskri ferðaskrifstofu hefur verið gert að greiða konu 314.000 kr. í bætur, en konan var rekin úr skipulagðri heilsuferð á vegum ferðaskrifstofunnar. Kröfu konunnar um að ferðaskrifstofan greiddi henni jafnframt 310.000 kr. vegna lögmannskostnaðar var hafnað. Kemur þetta fram í úrskurði Kærunefndar vöru-og þjónustukaupa, en ferðaskrifstofan er ekki nafngreind í úrskurðinum. RÚV greindi fyrst frá.
Konan er sjúklingur í sérmeðferð hjá verkjateymi Landspítalans og keypti hún sér heilsuferð sem farin var dagana 16. til 23. september í fyrra. Innifalið í ferðinni var flug, ferðir til og frá flugvelli, hótelgisting, hálft fæði og námskeið. Fram kemur í úrskurðinum að konan lauk verkjameðferð nokkrum dögum fyrir brottför og upplýsti hún fararstjórann um stöðu sína degi fyrir brottför. Fararstjórinn varaði konuna við því að ferðalagið væri bæði langt og erfitt og sagði konan við kærunefndina að flugferðin hefði reynst henni erfið og vanlíðan hennar mikil þegar hún kom út úr flugvélinni, á endanum hafi hún hnigið niður á flugvellinum.
Rekin á fyrsta degi
Í úrskurðinum kemur fram að konan segir fararstjórann hafa brugðist illa við stöðu hennar, hann hafi rekið hana úr ferðinni á fyrsta degi hennar og krafist þess að hún yfirgæfi hótelið og reynt að komast yfir greiðslukort og vegabréf hennar til að panta ferð heim. Fararstjórinn hefði neitað að ræða við hana, útilokað hana frá Facebook-hópi ferðarinnar og kallað hana andlega veika fyrir framan aðra hótelgesti. Konan hafi því ekki átt annarra kosta völ en finna sér annað hótel og hafi hún keypt flugfar heim þar sem henni var meinað að taka þátt í námskeiðinu.
Ferðaskrifstofan bar við ölvun konunnar
Ferðaskrifstofan bar því við að konan hefði verið vöruð við að ferðalagið væri erfitt og langt. Konan hafi hafið áfengisneyslu fyrir brottför þrátt fyrir að hafa þegið sterk verkjalyf, haldið drykkjunni áfram um borð og verið sýnilega ölvuð þegar komið var á áfangastað. Framferði konunnar hefði haft neikvæð áhrif á aðra farþega ferðarinnar og hætta hefði verið á að hún myndi spilla upplifun annarra. Konan hafnaði því að hafa verið ölvuð og sagði yfirlýsingar farþega sem báru vitni um ástand hennar varla hlutlausar, um væri að ræða tvo farþega og annar þeirra væri aðstoðarfararstjóri. Hún hefði ekki fengið neina viðvörun áður en hún var rekin og benti konan á að ferðin hafi átt að vera heilsuferð og því hefði ferðaskrifstofan mátt gera ráð fyrir að farþegarnir væru ekki allir heilir heilsu.
Nefndin taldi ákvörðun um brottrekstur ekki réttlætanlega
Í úrskurði kærunefndar segir að ferðaskrifstofunni hafi verið fulljóst að konan átti við heilsubrest að stríða, því hefði ferðaskrifstofan mátt gera ráð fyrir að konan þyrfti á stuðningi að halda. Hugsanleg ölvun konunnar hafi ekki réttlætt þá afdrifaríku ákvörðun fararstjóra að víkja henni úr ferðinni. Svo virðist sem ferðaskrifstofan hafi jafnframt ekki uppfyllt skilyrði í eigin skilmálum þar sem kemur skýrt fram að ef upp komi vandamál reyni farastjóri að greiða úr vanda farþega á staðnum.