Greint var frá því í gær að þekktur lögmaður hafi verið sakaður um að nauðga eiginkonu skjólstæðings síns ítrekað, á meðan eiginmaðurinn – sem lögmaðurinn starfaði í umboði fyrir – sat í gæsluvarðhaldi. Er lögmanninum gert að sök að hafa nýtt sér viðkvæma stöðu konunnar til að brjóta gegn henni og jafnvel hafi hann reynt að brjóta gegn henni á meðan hún lá inni á bráðageðdeild.
Það var Vísir sem greindi fyrst frá málinu, en frá því að fréttin kom út hafa samfélagsmiðlar logar þar sem netverjar keppast við að reyna að finna út hver umræddur lögmaður er.
Lögmaðurinn Ómar R. Valdimarsson segir að um ömurlegan samkvæmisleik sé að ræða. Enn sé aðeins um að ræða ásakanir, en umræddur aðili hefur hvorki verið sakfelldur né ákærður. Skrifaði Ómar á Facebook:
„Á meðan lögmaðurinn í fréttum er ekki nafngreindur, er ömurlegur samkvæmisleikur í gangi, þar sem keppst er við að geta sér um hver er. Á sama tíma væri ömurlegt fyrir umræddan lögmann að vera nafngreindur, þar sem ásakanirnar eru ákkúrat bara það: ásakanir.“
Ómar hefur nú eytt út færslunni en í stað hennar birt aðra þar sem hann tekur af tvímæli, hann sé ekki þessi þekkti lögmaður. „Ekki ég. Sorry haters“
Lögmaðurinn hefur neitað sök og segir að um tilraun til fjárkúgunar sé að ræða. Hafi lögmanninum borist tölvupóstar frá vini eiginmanns konunnar þar sem ítrekað var óskað eftir fundi við lögmanninn til að ræða um „framhald málsins“.
Sjá einnig: Lögmaðurinn óskaði eftir að kæran á hendur honum yrði rannsökuð sem tilraun til fjárkúgunar
Vísir greindi frá því að kæra hafi verið lögð fram gegn lögmanninum og mun málið hljóta flýtimeðferð hjá lögreglu sökum starfa lögmannsins sem reglulega er í forsvari í málum sem vekja athygli fjölmiðla. Lögmaðurinn hefur gengist við því að hafa átt í kynferðislegu sambandi við konuna en segir að það hafi verið með samþykki beggja. Stjórn Lögmannafélags Íslands fundaði vegna málsins í gær en formaður félagsins sagði málið alvarlegt í samtali við Vísi. Lögmenn gegni trúnaðarhlutverki gagnvart skjólstæðingum sínum og oft sé um að ræða einstaklinga í viðkvæmri stöðu og því skipti máli að öll samskipti séu fagleg.
Fréttastofa RÚV hafði það frá frá formanni Lögmannafélagsins að félaginu hafi borist ábendingar um starfshætti lögmannsins og ræddi einnig við eiginmanninn sem sagðist treysta því að málið færi sína leið í réttarkerfinu. Lögmaðurinn hafi blekkt konuna, nýtt sér veikindi hennar, boðið henni starf og gefið henni gjafir. Eru hjónin nú skilin að borði og sæng en standa þó saman að málarekstri gegn lögmanninum. Eiginmaðurinn undirbýr líka skaðabótakröfu fyrir eigin hönd sem og fyrir hönd barna sinna vegna þess miska sem hann telur að lögmaðurinn hafi valdið fjölskyldunni.