Finnska heimsendingarþjónustan Wolt hefur starfsemi hér á landi í dag. Fyrst um sinn verður einungis boðið upp á heimsendingar í póstnúmerum 101-108 í Reykjavík, Seltjarnarnesi, og póstnúmerinu 200 í Kópavogi. Stefnt er að því að stækka starfssvæðið á höfuðborgarsvæðinu sem fyrst.
Í tilkynningu fyrirtækisins segir að í gegnum app þess sé hægt sé að panta fjölda vara í heimsendingu og fá upp að dyrum innan 30-40 mínútna. Meðal annars matvörur, rétti frá veitingastöðum og raftæki. Segir í tilkynningunni að einn vinsælasti vöruflokkurinn hjá Wolt sé hjálpartæki ástarlífsins og að þau verði í boði í appi fyrirtækisins hér á landi.
Fyrirtækið segir að þegar fram líði stundir verði hægt að panta nánast allt í heimsendingu á höfuðborgarsvæðinu. Þetta sé í fyrsta sinn sem svo víðtæk heimsendingarþjónusta sé í boði hér á landi. Wolt starfar nú í 25 löndum en Ísland er síðast af Norðurlöndunum til að fá þjónustu fyrirtækisins.
Gjald Wolt er misjafnt eftir sendingum en lágmarksgjald er 499 krónur. Fyrirtækið segir í tilkynningu sinni að nú þegar hafi um 100 veitingastaðir skráð sig hjá Wolt, auk matvöruverslunar, blómabúðar, bókabúðar og barnavöruverslunar. Meðal veitingastaðanna sé KFC á Íslandi og sé það í fyrsta sinn sem hægt sé að panta mat frá KFC í heimsendingu hér á landi.