Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út vegna aðila sem hafði fallið um tvo metra ofan í holu í hverfi 104 í gærkvöldi og slasast. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Ákverkarnir reyndust blessunarlega minniháttar eftir fallið en aðilinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
Þá var tilkynnt um einstakling í annarlegu ástandi sem veittist að farþegum í strætó í Hafnarfirði. Sá var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir ölvun á almannafæri.
Þá var húsráðanda í Hafnarfirði verulega brugðið þegar að flugelda var kastað í hús viðkomandi. Engar skemmdir urðu á húsinu en gerendur flúðu af vettvangi.
Auk nokkurra ökumanna sem grunaðir eru um að hafa verið undir áhrifum við akstur þá var tilkynnt um óvenjulega uppákomu í Grafarvogi í gær. Ökumaður hafði þá flautað á vegfarenda sem hafði gengið í veg fyrir bíl hans. Sá tók flautinu illa og barði í rúðu bílsins með þeim afleiðingum að rúða brotnaði. Sá flúði svo af vettvangi en málið er í rannsókn lögreglu.